Innlent

Skorið niður í vegagerð

Sundabraut, Norðfjarðargöng og brú á Hornfjarðafljót eru meðal verkefna sem stefnir í að verði skorin niður. Þá bíða menn spenntir að sjá hvort eitt margsviknasta kosningaloforð þingmanna, Suðurstrandarvegur, lendi enn undir niðurskurðarhnífnum.

Í kerfinu er þessa daga verið að kortleggja tíu milljarða króna til að taka af framkvæmdafé Vegagerðar en Alþingi ákvað við lokaafgreiðslu fjárlaga að skera fimm milljarða af til viðbótar við álíka fjárhæð, sem áður hafði verið ráðgert að taka af markaðri vegaáætlun. Sundabraut verður eitt stærsta verkið sem frestast. Vegur í Gufudalssveit á Vestfjörðum um Teigsskóg fær sömu örlög, að mati heimildarmanna Stöðvar tvö, jafnvel þótt Hæstiréttur fallist á umdeilda vegagerð.

Vestfirðingar geta einnig gleymt í bili að láta sig dreyma um Dýrafjarðargöng. Norðaustanlands stefnir í að Dettifossvegur, Raufarhafnarleið og Vopnafjarðarvegur frestist og víst þykir að Norðfjarðargöng verða slegin af. Einnig brúargerð yfir Hornafjarðarfljót, svo það helsta sé nefnt. Suðurstrandarvegur þykir hins vegar líklegur til að sleppa undan hnífnum að þessu sinni þar sem stjórnvöld leitast við að halda í mannaflafrek verkefni nærri Reykjavík. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð eru það mörg stórverkefni í gangi, svo sem Óslhíðar - og Héðinsfjarðargöng, að nýbyrjað ár stefnir í að verða það næstmesta í sögu vegagerðar hérlendis, á eftir nýliðnu ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×