Lífið

Stjarna í áströlskum fótbolta

Páll Tómas hefur afrekað að leika með þremur mismunandi landsliðum í áströlskum fótbolta.
Páll Tómas hefur afrekað að leika með þremur mismunandi landsliðum í áströlskum fótbolta.

Páll Tómas Finnsson er ein helsta stjarnan í Evrópu þegar kemur að áströlskum fótbolta. Hann hefur stundað íþróttina í tæp fimmtán ár, fyrst í Danmörku við góðan orðstír og nú í Frakklandi. Páll hefur náð því afreki að leika með þremur landsliðum í íþróttinni, því danska, franska og síðast því íslenska. Páll er nú búsettur í París, er fyrirliði liðsins í borginni og varð nýverið Frakklandsmeistari. Hart er sótt að honum að sækjast eftir kjöri forseta Evrópusambands ástralsks fótbolta á stofnfundi þess sem haldinn verður í Frankfurt í janúar á næsta ári.

Páll er hógvær þegar þetta er hermt upp á hann, að hann sé ein helsta stjarnan í þessari harðskeyttu íþróttagrein. „Ég spilaði í Skandinvavíu lengi og hef því kynnst mjög mörgum enda er þetta tiltölulega ung íþrótt í Evrópu. Maður er því farinn að kannast við ansi marga í kringum þetta,“ segir Páll. Bróðir Páls, Jón Hrói Finnsson, kynnti hann fyrst fyrir íþróttinni í Danmörku og hann kolféll strax fyrir henni. „Hún hefur leikið ansi stórt hlutverk í veigamiklum ákvörðunum sem ég hef tekið. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég flutti frá Danmörku til Parísar var til að mynda að athuga hvort borgin væri ekki örugglega með lið í áströlskum fótbolta,“ útskýrir Páll.

Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir helgi er í kringum tuttugu manna hópur sem æfir íþróttina hér á landi og Páll segist vera ákaflega sáttur við það sem hann hafi séð til drengjanna. „Ég held að þessi íþrótt geti alveg slegið í gegn hér. Þeir sem hafa æft handbolta hafa náð mjög fljótt góðum tökum á henni og er hún ekki þjóðaríþróttin okkar?“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.