Lífið

Óttar Norðfjörð á spænsku í tuttugu löndum

Óttar m. Norðfjörð Samningar hafa náðst um að gefa tvær bækur Óttars út í hinum spænskumælandi heimi.
fréttablaðið/völundur
Óttar m. Norðfjörð Samningar hafa náðst um að gefa tvær bækur Óttars út í hinum spænskumælandi heimi. fréttablaðið/völundur

Samningar hafa náðst á milli Sögur útgáfu og spænska bókaforlagsins Duomo Ediciones um útgáfu á Sólkrossi og Hnífi Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð á spænsku. „Þetta er mjög öflugur útgefandi," segir Tómas Hermannsson hjá Sögum.

Samningurinn, sem náðist á bókamessunni í Frankfurt, er einstakur fyrir þær sakir að ekki er aðeins miðað við útgáfu bókanna á Spáni, heldur í öllum hinum spænskumælandi heimi, sem þýðir útgáfu í allt að tuttugu löndum. Að sögn Tómasar fær Óttar sjálfur langmestan peninginn sem felst í samningnum. „Fyrir höfunda skiptir þetta rosalegu máli. Það gerir þeim kleift að lifa á því að skrifa ef þeir ná því að vera gefnir út í mörgum löndum. Hvert land er kannski ekkert rosalegt en þegar höfundurinn er kominn til nokkurra landa fer að vera grundvöllur fyrir hann að lifa á þessu."

Fyrirhugað er að Sól­kross komi út á spænsku jólin 2010. Duomo hyggst leggja mikið í markaðssetningu á bókinni því miklar vonir eru bundnar við hana, enda eru norrænir krimmahöfundar vinsælir um þessar mundir. Hnífur Abrahams kemur síðan út 2011. Duomo Ediciones er í eigu ítalska útgáfurisans Gruppo editoriale Mauri Spagnol, sem er meðal þeirra allra stærstu á Ítalíu, og rekur til að mynda níu bókaforlög.

Hnífur Abrahams hefur áður komið út í Hollandi og Sólkross hefur nú þegar verið seldur til Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Hér heima hefur Hnífur Abrahams selst í um sex þúsund eintökum og Sól­kross í um þremur þúsundum. Nýútkomin bók Óttars nefnist Paradísarborgin. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.