Mörg Evrópulönd brjóta nú reglur ESB vegna mikilla opinberra skulda sinna en skuldirnar eru komnar langt fram úr þeim hámörkum sem gilda samkvæmt reglugerðarverki ESB.
Í umfjöllun sunnudagsútgáfu Berlingske Tidende um málið segir að viðkomandi lönd eigi á hættu sektir af hálfu ESB vegna þessa eða að þau neyðist til að leggja fram háar greiðslur, án vaxta, til sjóða ESB.
Blanda af miklum fjárlagahalla, vaxandi skulda, hærri vaxta og auknum fjárframlögum til efnahagslegra björgunaraðgerða gerir það að verkum að opinberar skuldir eru að verða nær óviðráðanlegar í mörgum Evrópulöndum.
Það flækir svo málið að framkvæmdastjórn ESB hefur í mörgum tilvikum hvatt þessar þjóðir til að auka ríkisumsvif sín til að hamla gegn fjármálakreppunni og afleiðingum hennar.
Samkvæmt reglum ESB mega opinberar skuldir landa innan sambandsins ekki vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu viðkomandi lands og fjárlög þeirra mega ekki fara yfir 3% af landsframleiðslunni. Þessi viðmið er að finna í "Stöðugleika- og vaxtarsamningi" ESB sem samþykktur var á sínum tíma að frumkvæði Þjóðverja.
Það er ljóst að lönd eins og Írland, Frakkland, Spánn og Grikkland er komin fram úr þessum viðmiðunum en reglurnar gilda einnig yfir lönd sem eru utan myntbandalagsins eins og Danmörk og Svíþjóð.
Í fyrrgreindum samningi eru þó ákvæði um að við sérstakar aðstæður megi lönd fara fram úr fyrrgreindum viðmiðunum og vissulega er hægt að segja að 4% samdráttur í heildina í landsframleiðslu evru-landanna í ár séu sérstakar aðstæður.
ESB lítur þó ekki svo á málið enda var vöxtur í fyrrgreindum löndum allt fram á síðasta ár. Því hefur sambandið fyrirskipað Írlandi, Frakklandi, Spáni og Grikklandi að lagfæra hallann hjá sér eða eiga á hættu fyrrgreind viðurlög.