Bandaríski vogunarsjóðurinn Paulson & Co, hefur hagnast um 295 milljónir punda, jafnvirði 50 milljarða króna, með skortsölu á hlutabréfum í Royal Bank of Scotland frá í september í fyrra.
Sjóðurinn hefur sömuleiðis hagnast vel á sölu bréfa bresku bankanna Barclays og Lloyds, að sögn breska viðskiptadagblaðsins Financial Times.
Skortsölur voru gagnrýndar í aðdraganda fjármálakreppunnar enda talið að þær gætu valdið fyrirtækjum sem urðu fyrir barðinu á þeim óheyrilegu tjóni. Í kjölfarið voru skortsölur bannaðar beggja vegna Atlantsála. Bannið nær til nýrra viðskipta en ekki þeirra samninga sem voru í gildi þegar það var sett á, líkt og í tilviki Paulson & Co.
Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sem margir telja ábyrgan fyrir fjármálakreppunni, settist í ráðgjafanefnd sjóðsins um mitt síðasta ár.
Sjóðurinn tengist Íslandi óbeint en hann var ráðandi hluthafi í hollensku iðnsamsteypunni Stork þegar Eyrir Invest, Marel og Landsbankinn hófu vinnu við yfirtöku hennar árið 2006.