Lífið

Anna Mjöll með skilnaðarblús

Takið vasaklútana MEð! Anna Mjöll Ólafsdóttir treður upp á Bökuðu kartöflunni í kvöld.
Takið vasaklútana MEð! Anna Mjöll Ólafsdóttir treður upp á Bökuðu kartöflunni í kvöld.

Anna Mjöll Ólafsdóttir býr og starfar í Los Angeles. Hún heldur fyrstu stóru sólótónleikana sína í borginni í kvöld, á hinni gagnmerku djassbúllu The Baked Potato. „Eigandinn er búinn að biðja mig lengi um að koma einhverju saman og troða upp hjá sér og það passar vel að gera það núna þegar nýja sólóplatan mín er að koma út," segir Anna Mjöll.

Sólóplatan heitir Shadow of Your Smile og kemur út í lok nóvember. „Ég syng djassstandarda í nútímalegum útgáfum, enda er ég með svo hipp gaura með mér. Það er búið að auglýsa þessa tónleika mikið og Íslendingafélagið ætlar að minnsta kosti að fjölmenna. Það situr á fremsta bekk og heldur í höndina á mér."

Anna blæs á það að vera orðin amerísk þrátt fyrir amerískan hreim. „Við vorum einmitt að tala um þetta í Íslendingafélaginu. Þótt maður hafi búið úti í 100 ár talar maður alltaf um að „fara heim" þegar maður fer til Íslands. Þetta er rannsóknarefni. Ég kem oft heim til að hlaða batteríin. Ég kem um jólin og syng þá örugglega eitthvað."

Anna Mjöll skildi við eiginmann sinn fyrir tveimur mánuðum. „Það er bara ein regla: Að fólk mæti með tissjú-box! Og ég ætla að nota þau öll sjálf," segir söngkonan, meira í gríni en alvöru. Og þó. „Það passar náttúrlega mjög vel að syngja þessa músík núna. Ég ætla að taka skilnaðarblúsinn út á áhorfendum."

Anna einbeitir sér nú að sólóferlinum, en að auki fær hún verkefni. Hún samdi þrjú lög fyrir grínmyndina For Your Consideration - „Það er þó ekkert merkilegt. Merkilegast finnst mér að fá að syngja djass. Það er það sem stendur hjarta mínu næst."- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.