Innlent

Þorsteinn Kragh í fangelsi í níu ár

Stígur Helgason skrifar
Dómur Hæstaréttar í máli Þorsteins Kragh féll í gær og var þar staðfest sekt hans.
Dómur Hæstaréttar í máli Þorsteins Kragh féll í gær og var þar staðfest sekt hans.
Hæstiréttur hefur staðfest níu ára fangelsisdóm yfir athafnamanninum Þorsteini Kragh.

Þorsteinn skipulagði innflutning á um 200 kílóum af hassi til landsins. Aldinn Hollendingur, Jacob van Hinte, sem flutti efnið inn falið í húsbíl, hlaut sjö og hálfs árs fangelsi sem Hæstiréttur staðfesti einnig.

Hollendingurinn játaði sök en Þorsteinn neitaði allri aðild að málinu. Framburður beggja þótti með miklum ólíkindum.

Jacob Van Hinte.
 Efnin bárust til landsins 10. júní í fyrra, vandlega falin í húsbíl Hollendingsins um borð í Norrænu. Hollendingurinn benti fyrst í stað á Þorstein sem skipuleggjanda smyglsins.

Á síðari stigum rannsóknarinnar tók framburður Hollendingsins u-beygju. Kannaðist hann þá ekkert við aðild Þorsteins og bar að tveir Bandaríkjamenn, Bill og Jim, hefðu fengið hann til verksins.

Sagði í dómi héraðsdóms að breyttur framburður Hollendingsins væri „svo ótrúverðugur og reyfarakenndur að hann verði ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni“. Þá væri framburður Þorsteins með ólíkindum og „í algjöru ósamræmi við flest annað sem fram er komið í málinu“. Þorsteinn eigi sér engar málsbætur.

Það var virt Hollendingnum til refsilækkunar að hafa játað og vísað á Þorstein, jafnvel þótt hann hafi síðar horfið frá þeim framburði sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×