Lífið

Damien borðar baunarétt og bollur með börnunum

leikur á als oddi Damien Rice tók upp íslenska áhorfendur sem gætu endað á næstu plötu hans.
leikur á als oddi Damien Rice tók upp íslenska áhorfendur sem gætu endað á næstu plötu hans.

Damien Rice er búinn að dvelja á landinu frá því á þriðjudag. Hann heimsækir leikskólann Laufásborg í dag og tekur þátt í náttúru­vakningu í Ráðhúsinu. Íslenskir áhorfendur sungu með í einu laganna í opnum upptökum í Sundlauginni.

„Við buðum honum í mat. Við erum með eðalkokk, þannig að hann fær rosalega gott að borða marokkóskan baunarétt og grænmetis­bollur," segir Matthildur Laufey Hermannsdóttir, skólastjóri Litla kjarna á leikskólanum Laufásborg.

Matthildur og krakkarnir á Laufásborg taka á móti írska tónlistarmanninum Damien Rice í hádeginu í dag. Hann er búinn að dvelja á Íslandi frá því á þriðjudag og var með opnar upptökur á nýju efni í Sundlauginni í Mosfellsbæ á miðvikudag og í gær.

„Börnin syngja örugglega fyrir hann, en þá verður það eitthvað íslenskt," segir Matthildur spurð hvort börnin hafi lært lög eftir írska fagurgalann. Hann tekur gítar­inn með og fær því væntanlega að leika undir í klassískum íslenskum leikskólalögum. Næst fer Rice með börnunum í Hljómskálagarðinn þar sem þau gróðursetja tuttugu plöntur í svokallaðan Laufásborgarreit. Hann endar svo í Ráðhúsinu klukkan 16 þar sem hann tekur þátt i náttúruvakningu.

Damien Rice lék á als oddi í fjórum opnum upptökutörnum í Sundlauginni, hljóðverinu sem var áður í eigu Sigur Rósar. Biggi, sem ræður þar ríkjum í dag, snéri tökkunum og nálægð áhorfenda var svo mikil að fremsta röðin var aðeins nokkrum sentimetrum frá Rice. Í einu af nýju lögunum fékk hann áhorfendur til að syngja með í viðlaginu og tók hann sér góðan tíma í að kenna þeim rétta stefið. Rice var hinn alþýðlegasti og í eitt skipti leyfði hann áhorfendum að heyra upptökurnar. Ef þær koma vel út eru góðar líkur á að íslenskir áhorfendur verði í aukahlutverki á næstu plötu Rice.

Engar myndatökur voru leyfðar í upptökunum, sem voru þó teknar upp á myndband. Áhorfendum var bannað að vera með síma á tónleikunum og skildu þá eftir á gömlu orgeli frammi á gangi.

Sjálfur hafði Rice lítinn tíma til að vera í fríi á Íslandi, en brá sér þó í kvöldverð á Fiskfélaginu á miðvikudag. Það er spurning hvort baunarétturinn á Laufásborg slær veitingastaðnum við.atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.