Fótbolti

Úrúgvæ varð síðasta þjóðin að bóka farseðilinn á HM

Ómar Þorgeirsson skrifar
Það var góð stemning í Montevideo í leikslok í gær.
Það var góð stemning í Montevideo í leikslok í gær. Nordic photos/AFP

Síðasti umspilsleikur gærkvöldsins var viðureign Suður-Ameríkuþjóðarinnar Úrúgvæ og mið-Ameríkuþjóðarinnar Kosta Ríka en leikurinn fór fram í Motevideo og lyktaði með 1-1 jafntefli.

Þar sem Úrúgvæ vann fyrri leikinn 0-1 á útivelli nægði jafnteflið liðinu til þess að tryggja sér þátttökurétt á HM næsta sumar.

Sebastian Abreu kom Úrúgvæ yfir eftir tuttugu mínútur í leiknum í gærkvöldi en Walter Centeno, fyrirliði Kosta Ríka, jafnaði leikinn fyrir gestina þegar skammt var til leiksloka en lengra komst Kosta Ríka ekki og Úrúgvæar fögnuðu eins og brjálaðir í leikslok.

Úrúgvæ á sér ríka hefð fyrir HM og vann til að mynda fyrsta mótið sem haldið var árið 1930 en Úrúgvæ varð svo aftur heimsmeistari árið 1950.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×