Viðskipti erlent

AGS: Fordæmislausar ráðstafanir til hjálpar fátækum ríkjum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Dominique Strauss-Kahn er framkvæmdastjóri AGS.
Dominique Strauss-Kahn er framkvæmdastjóri AGS.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur til með að gera fordæmislausar ráðstafanir til að hjálpa fátækum ríkjum að takast á við samdrátt efnahagslífsins, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Sjóðurinn kemur til með að auka lánveitingar sínar um allt að sautján milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði yfir 2700 milljarða króna, fram til ársins 2014.

Þá stendur til að fresta vaxtagreiðslum lána til fátækustu ríkja til 2011.

Til stendur að selja hluta af gullforða sjóðsins til að standa undir aðstoðinni.

„Þetta er fordæmislaus aukning aðstoðar frá AGS til fátækustu landa heims í Afríku og um allan heim," segir Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS.

Hann segir aðgerðirnar munu bjarga milljónum manna frá fátækt og hjálpa ríkjunum til lengri tíma.

Þessar miklu lánveitingar eru að sögn viðbragð sjóðsins við fundi G20 ríkjanna í apríl, þar sem aukinnar aðstoðar var krafist.

Fyrr í mánuðinum veitti AGS risavaxin lán til bæði Sri Lanka og Ghana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×