Lífið

Ekki dónalegur Dónadúett

Dr. Karl og Hr. Ottó skipa Dónadúettinn.
Dr. Karl og Hr. Ottó skipa Dónadúettinn.
„Við höfum oft sagt að við syngjum ekki um dónaskap heldur um sannleikann. Það er bara hann sem er á tíðum dónalegur. Ekki við. Það er til dæmis staðreynd að til er fólk sem hefur bæði kynfæri karlmanns og kvenmanns. Það fólk er tvítóla og ekkert dónalegt við það þó svo að við syngjum um mann sem er með píku undir pungnum sínum,“ segir Ottó Tynes í Dónadúettnum. „Það eru kannski bara helstu mistökin hjá okkur að kalla okkur Dónadúettinn! Það er dálítið leiðandi nafn.“

Ottó er með Karli Karlssyni í Dónadúettinum. Þeir eru búnir að skemmta í partíum og á tónleikum í tuttugu ár með stuttum og hnitmiðuðum lögum sem bera nöfn eins og „Hress lesbía“ og „Rassinn á Hr. Ólafi R.“ Diskurinn heitir Venjulegt kynlíf og inniheldur 22 lög. Dúettinn fær aðstoð hjá öllum þremur sonum Magga Eiríks, þeim Stefáni, Andra Geir og Magnúsi.

„Platan er ekki löng því slatti af lögunum er undir einni mínútu. Það er bara vegna þess að um leið og maður er búinn að semja eitt erindi og viðlag þá er brandarinn búinn – óþarfi að vera að endurtaka lélegan brandara of oft,“ segir Ottó. Hann vinnur hjá Rauða krossinum og Karl er taugalífeðlisfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík. „Við viljum því ekki halda okkur sem persónum mikið í sviðsljósinu. Viljum aðskilja bullið frá okkar daglega lífi. Við bullum bara í frístundum.“

Útgáfutónleikar Dónadúettsins verða á Kringlukránni í kvöld. Diskurinn fæst hjá 12 Tónum og Max raftækjum.- drg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.