Viðskipti erlent

Lloyds TSB tekur yfir skuldbindingar Landsbankans í All Saints

Tískuvörukeðjan All Saints hefur nú náð samningi við Lloyds TSB bankann um lán upp á 30 milljónir punda eða um 6,3 milljarða kr. Með þessu hefur bankinn tekið yfir skuldbindingar Landsbankans gagnvart All Saints að því er segir á vefsíðu RetailWeek.

Í mars s.l. var All Saints bjargað frá þroti eftir að íslensku bankarnir Kaupþing og Landsbankinn, þáverandi aðallánadrottnar All Saints, féllust á fjárhagslega endurskipulagningu keðjunnar. Þá var ákveðið að Kevin Stanford myndi áfram stjórna All Saints.

Baugur átti áður 35% hlut í All Saints en sá hlutur er nú á forræði íslensku bankanna.

Í umfjöllun RetailWeek um málið segir að láninu frá Lloyds sé ætlað til að styðja við vöxt All Saints bæði innanlands í Bretlandi og á alþjóðavettvangi.

Stephen Craig framkvæmdastjóri All Saints segir að keðjan hafi metnaðarfull áform og stuðningurinn frá Lloyds geri það að verkum að auðveldara verður að koma þeim í framkvæmd.

Forstjóri fyrirtækjasviðs Lloyds, Charles Lamplugh, segir að það sé ánægjulegt að sjá hve vel All Saints hefur náð sér á strik frá því í vetur. „Þetta er vel rekin starfsemi með trausta stjórnendur," segir Lamplugh.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×