Skoðun

Grænir sprotar efnahagsbatans

Nú er komið að því að Íslendingar ákveði hvort þeir ætla að taka höndum saman um að rífa sig upp úr svartnætti vetrarins og horfa fram á veginn með markvissri uppbyggingu samfélagsins eða halda áfram að vorkenna sér.

Ég geri ekki lítið úr þeim mikla vanda sem við er að fást vegna atvinnuleysis, erfiðrar skuldastöðu heimila og atvinnulífs, gjaldeyrishafta og þeirra alvarlegu tafa sem orðið hafa á endurreisn bankakerfisins.

Mikilli orku hefur verið eytt í að leita svara við því hvað fór útskeiðis og finna þá sem bera ábyrgð. Löggjafinn hefur þegar komið á fót rannsóknarnefnd og embætti sérstaks saksóknara sem hafa það verkefni að leiða sannleikann í ljós og láta þá svara til saka sem kunna að hafa gerst brotlegir. Ég tel mikilvægt að sú vinna fari fram á þeim vettvangi. Við verðum að treysta réttum yfirvöldum fyrir því og láta af þeirri iðju að taka fólk unnvörpum af lífi án dóms og laga. Slík vinnubrögð munu ekki leiða til farsældar. Alþingi götunnar bætir okkur ekki.

Í ræðu minna á nýafstöðnu iðnþingi hvatti ég fjölmiðla og aðra áhrifaaðila í þjóðfélaginu til að fara nú að horfa út úr myrkrinu og leggjast á árar með þeim sem vilja taka til við það af krafti að byggja samfélagið upp að nýju.

Í efnahagslegu tilliti verður sú uppbygging að fara fram með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Við þurfum öflugan hagvöxt. Við þurfum að skapa störf til að sporna við atvinnuleysi. Við þurfum að efla útflutning og gjaldeyrissparandi framleiðslu í landinu. Við þurfum að nýta orkuauðlindir og allar aðrar auðlindir landsins af fullum þunga en einnig af skynsemi. Við höfum ekki efni á að láta nein tækifæri fram hjá okkur fara. Við höfum ekkert að gera við stjórnvöld eða embættismenn sem hamla gegn uppbyggingu og standa í vegi fyrir verðmætaskapandi atvinnufyrirtækjum.

Á iðnþingi var fjallað um þau miklu tækifæri sem Íslendingar eiga þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir skugga vandamála og ógnvekjandi atburða á liðnum mánuðum ríkti bjartsýni á iðnþinginu. Við gerum okkur ljóst að það býr mikill kraftur í Íslendingum. Við eigum miklar auðlindir. Við eigum menntað fólk og við eigum fólk sem er vant að takast á við sveiflur og erfiðleika - og sigrast á þeim.

Vandinn sem við er að fást er að hluta til huglægur þó hann sé einnig býsna áþreifanlegur. Við verðum að trúa því að Íslendingar geti náð sér á strik með öflugri atvinnuuppbyggingu og aukinni verðmætasköpun. En það verður einnig að gera þá kröfu að stórlega dragi úr niðurrifi og neikvæðni. Það skilar okkur engu nema vonbrigðum.

Íslenskur iðnaður gegnir mikilvægu hlutverki í verðmætasköpun Íslendinga. Iðnaðurinn verður að leggja mikið til hagvaxtar næstu ára ef endurreisnin á að takast fljótt og vel. Þar verðum við að treysta á hina miklu breidd iðnaðarins, allt frá sprotafyrirtækjum til stóriðju og allt þar á milli.

Nú þarf að ljúka nokkrum forgangsmálum til þess að hjólin fari að snúast í rétta átt:

1. Fyrsta krafan er áfram um lækkun vaxta, afnám gjaldeyrishafta eins fljótt og aðstæður leyfa og endurreisn stóru bankanna þannig að þeir geti af fullu afli sinnt grunnviðfangsefnum sínum, þjónustu við fólk og fyrirtæki.

2. Það þarf að greiða úr óvissu varðandi sparisjóði og smærri fjármálafyrirtæki, m.a. með því að nýta lagaheimildir til að leggja þeim til 20% eiginfjárframlag þar sem líklegt er að það dugi þeim til að komast á beinu brautina. Þessi fyrirtæki eiga að geta gegnt mikilvægu hlutverki í starfsemi á fjármálamarkaði og skapað mótvægi við núverandi ríkisbanka og aukið samkeppni þegar eðlilegt ástand skapast.

3. Það þarf að taka af skarið varðandi úrlausnir í bankakerfinu vegna framvirkra samninga sem atvinnulífið og lífeyrissjóðir gerðu í góðri trú áður en bankarnir hrundu. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar í allan vetur án niðurstöðu. Það er farið að skaða starfsemi aðila mjög alvarlega. Ekki verður lengur undan því vikist að höggva á hnútinn.

4. Það þarf hið fyrsta að taka afstöðu til niðurfellinga og leiðréttinga á uppsöfnuðum skuldum fólks og fyrirtækja vegna ofurvaxta síðari ára, gengistapakostnaðar sem er að sliga allt of marga. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi, m.a. frá framsóknarmönnum um 20% niðurfærslu. Þær hafa ekki fengið næga athygli fyrr en allra síðustu daga. Hugmyndum þeirra, sem fleiri hafa nú tekið undir, er ekki hægt að henda óræddum út af borðinu nema stjórnvöld og önnur ráðandi öfl komi með betri lausnir.

5. Þá vil ég vara við hugmyndum um stofnun sérstaks eignaumsýslufélags ríkisins sem hefði það hlutverk að taka til sín „þjóðhagslega mikilvæg" fyrirtæki með það að markmiði að endurskipuleggja þau fjárhagslega og ráðstafa þeim síðan eftir einhver ár í ríkiseigu og ríkisrekstri. Þetta er afleit hugmynd og brýnt er að leiða Alþingi það fyrir sjónir að stofnun þessa félags væri afleikur. Íslendingar hafa næga reynslu af fyrirbærum eins og Framkvæmdastofnun ríkisins sem sett var á stofn í byrjun áttunda áratugarins, Hlutabréfasjóðnum sem stofnaður var í lok níunda áratugarins og öðru slíku. Sporin hræða og starfsemi slíkra stofnana var kölluð „sjóðasukk" af sumum og það tók langan tíma að greiða úr þeim vandamálum sem urðu til með starfsemi þeirra. Það verður að leysa vanda stærri fyrirtækja með öðrum hætti en stofnun eignarhaldsfélags ríkisins að sænskri fyrirmynd. Við skulum nú varast að sækja allar lausnir og sannleikann til útlanda! Nýtum okkur eigin reynslu - m.a. af því sem gert var rangt fyrir áratugum með vanhugsuðum stofnunum.

Nú er mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi afgreiði brýnustu mál áður en kosningabaráttan tekur við af löggjafarstörfum. Það er ekki hægt að bíða fram í mai eða júní eftir að ný ríkisstjórn geti farið að beita sér af krafti.

Ef Íslendingar taka nú réttar ákvarðanir og fara að horfa fram á veginn til að vinna úr því sem er jákvætt og mögulegt þá mun rofa fyrr til á Íslandi en ætlað hefur verið.

Jákvæð teikn eru aðeins farin að sjást úti í hinum stóra heimi. Ástand mála á heimsmarkaði varða okkur miklu. Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í samtali við CBS-sjónvarpsstöðina í byrjun þessarar viku að hann væri þegar farinn að sjá „græna sprota" efnahagsbatans.

Það eru góðar fréttir.






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×