Handbolti

Hrafnhildur: Stolt af því að skora ellefu mörk klukkan tólf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir.
Hrafnhildur Skúladóttir.
Hrafnhildur Skúladóttir var kát eftir 11 marka leik sinn á móti Haukum í undanúrslitaleik kvenna í Flugfélags Íslands Deildarbikarnum í dag. Hrafnhildur fór á kostum og Valsliðið vann öruggan sex marka sigur.

„Ég er aldrei mikil morgunmanneskja og er yfirleitt ekki vöknuðu almennilega fyrr en sex eða sjö á kvöldin þannig að ég er bara ótrúlega stolt af þessum árangri klukkan tólf," sagði Hrafnhildur í viðtali á Sporttv sem sýnir alla leiki keppninnar í beinni útsendingu.

Valur mætir annaðhvort Stjörnunni eða Fram í úrslitaleiknum á morgun.

„Það er miklu skemmtilegra að spila leik á morgun en að mæta á æfingu. Ef við hefðum tapað þessum leik þá hefði bara verið æfing á morgun og örugglega líka sprettir. Það er miklu skemmtilegra að spila," segir Hrafnhildur af einlægni

Valur lenti mest fimm mörkum undir í fyrri hálfeik en kom sér fljótt inn í leikinn og hafði síðan yfirburði í seinni hálfleiknum.

„Þetta hefur verið svona í leiknum hjá okkur í vetur og við byrjum alltaf eins og fífl. Það var þannig á móti bæði Fram og Stjörnunni. Ég veit ekki hvað þetta er en við erum alltaf rólegar yfir þessum byrjunum því við vitum að þetta kemur.Í fyrra vorum við fljótar að hengja haus og fara í bullið þegar við lentum undir en núna er allt öðruvísi stemmning yfir liðinu," sagði Hrafnhildur við Guðmund Marínó Ingvarsson í viðtali á Sporttv.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×