Skoðun

Efnt til illdeilna

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Í mánudagsblaðinu skrifar Steinunn Stefánsdóttir skoðun blaðsins með þeim einarða ásetningi að efna til illdeilna við fólk á landsbyggðinni. Hún ber þær sakir á samgönguráðherra undanfarinna áratuga að þeir hafi stjórnast af kjördæmapoti við ákvörðun verkefna í vegagerð og að þeir beri ábyrgð á banaslysum á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Hún leggst gegn verkefnum á landsbyggðinni „þar til framkvæmdum við allra fjölförnustu hluta þjóðvegar eitt er lokið". Málflutningurinn er ósannur, höfuðborgarsvæðið hefur stækkað og eflst vegna þess að samgöngurnar þar hafa verið góðar og mætt kröfum íbúanna og atvinnufyrirtækja.

Málflutningurinn er ósæmilegur vegna þess að beinlínis er sagt að bregðast eigi við dauðsföllum eða slysum sem verða á höfuðborgarsvæðinu en ekki annars staðar, fyrr en seinna. Málflutningurinn er óheiðarlegur vegna þess að hann vegur að æru heiðarlegra manna sem verið hafa samgönguráðherrar. Málflutningurinn er óvandaður vegna þess að hann tekur ekki mið af fyrirliggjandi staðreyndum um umferðaröryggismál. Í skýrslu á vegum Vegagerðarinnar um arðsemi og ávinning af vegaframkvæmdum segir að banaslys séu blessunarlega svo fátíð að staðsetning þeirra sé tilviljunarkennd. Önnur skýrsla frá 2005 um umferðarslys erlendra ferðamanna 2000-2004 dregur fram að öll 7 banaslysin á tímabilinu urðu á landsbyggðinni og að auki 63% af slysunum.

Til er skýrsla frá maí 2007 um tillögur að úrbótum á umhverfi vega. Þar segir að brýnasta atriðið sé að hreinsa öryggissvæði við vegi í dreifbýli og hafa viðunandi halla á fláanum. Enn má nefna að fram kemur í gögnum Vegagerðarinnar að 57% af umferð á þjóðvegum landsins árið 2007 hafi verið í dreifbýli. Fleira þarf að gera til þess að draga úr slysum en bæta vegi og fleira ræður arðsemismati á framkvæmd en slysatíðnin ein. Fréttablaðið ætti ekki að skrifa fleiri leiðara af þessu tagi. Frekar á að skrifa þjóðina saman en í sundur.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.








Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×