Lífið

Kvikmyndafyrirtæki læsir klóm í Konur Steinars Braga

Steinar Bragi bjóst aldrei við því að skáldsaga hans Konur yrði kvikmynduð en Þórir Snær Sigurjónsson og ZikZak hafa tryggt sér kvikmyndaréttinn að henni.
Steinar Bragi bjóst aldrei við því að skáldsaga hans Konur yrði kvikmynduð en Þórir Snær Sigurjónsson og ZikZak hafa tryggt sér kvikmyndaréttinn að henni.

Framleiðslufyrirtækið ZikZak hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bók Steinars Braga, Konur, sem kom út á síðasta ári. Hún fékk frábæra dóma og var af mörgum talin bók ársins. Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi hjá ZikZak, var því að vonum ánægður með að klófesta verkið.

„Hún var náttúrlega afar fersk þegar hún kom út og þarna eru miklir möguleikar á túlkun fyrir hvíta tjaldið,“ segir Þórir en ZikZak hefur verið öflugt á þeim vettvangi að tryggja sér kvikmyndarétt að íslenskum skáldverkum. „Við erum alltaf að skoða bækur en þessi stóð óneitan­lega upp úr í fyrra,“ segir Þórir og útilokar ekki að kvikmyndin verði jafnvel gerð á ensku. „Nú fer hún í venjulegt ferli hjá okkur og kannski í smá forgang því þetta er verk sem við erum ákaflega hrifnir af. Nú er bara að finna rétta fólkið, handritshöfunda og leikstjóra, til að koma þessu upp á hvíta tjaldið.“

Bókin segir frá konu sem flytur til Íslands og fær í gegnum kunningja sína í bankageiranum glæsilega risíbúð í Skuggahverfinu. Smám saman uppgötvar hún að ekki er allt sem sýnist, að hún er fangi íbúðarinnar. Þórir segir að það hafi einmitt verið þessi drungalega stemning sem hafi fangað hann fyrst. „Mín túlkun er sú að Steinar Bragi sé þarna að skrifa um hin ósýnilegu landamæri sem minnihlutahópar þurfa einmitt alltaf að kljást við.“

Steinar Bragi var að vonum ánægður með samninginn en bætir því við að þessi draumur geti auðveldlega snúist upp í martröð.

„Það fer auðvitað eftir því hvernig kvikmyndin kemur út,“ segir Steinar Bragi og bætir því við að þreifingar um þessi mál hafi hafist í febrúar. Þá hafi hann verið innilokaður í Kanada vegna efnahagshrunsins á Íslandi og nærst nær eingöngu á ókeypis kebab.

„Það hvarflaði annars aldrei að mér að þessi bók gæti orðið að kvikmynd. Ég held líka að ef maður sjái það eitthvað fyrir sér gæti maður bara alveg eins skrifað kvikmyndahandrit,“ segir Steinar, sem hyggst ekki vera með puttana í kvikmyndagerðinni sjálfur. „Nei, þeir hjá ZikZak eru djúpir og snjallir. Vonandi fær maður samt að vera með.“freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.