Lífið

Sló í gegn með Slori og skít

Rokksveitin Hoffman frá Vestmannaeyjum hefur gefið út sína fyrstu breiðskífu.
Rokksveitin Hoffman frá Vestmannaeyjum hefur gefið út sína fyrstu breiðskífu.

Fyrsta breiðskífa rokksveitarinnar Hoffman, Your Secrets Are Safe with Us, er komin í búðir. Vinnslan við hana hófst í október í fyrra á sama tíma og kreppan skall á með miklu offorsi. Bassaleikarinn Sæþór Ágústsson segir að áfallið hafi veitt sveitinni mikinn innblástur.

„Við vorum allir uppteknir við að fá sneið af gróðakökunni. Menn komu aðeins niður á jörðina aftur. Við fórum að hafa meiri tíma í þetta og textarnir á plötunni eru mikið til ádeilur um hvernig þjóðfélagið var orðið,“ segir Sæþór. „Sjálfur er ég dálítið hrifinn af þessari kreppu. Mér fannst þjóðfélagið vera orðið ansi svínslegt. Ég held að við höfum bara gott af þessu, þótt þetta sé erfitt á köflum.“

Liðsmenn Hoffman ólust upp í Vestmannaeyjum, þar sem nýja platan var tekin upp. Segja má að þeir félagar hafi fyrst slegið í gegn í heimabæ sínum í sumar eftir að þeir tóku upp stuðningsmannalag ÍBV, Slor og skítur, sem hljómaði í myndinni Nýju lífi.

„Mér skilst að öll eyjan sé undirlögð í þessu,“ segir Sæþór, sem býr í Reykjavík eins og hinir úr sveitinni. „ÍBV-liðið syngur þetta alltaf eftir sigurleiki og við vorum fengnir til að endurútsetja þetta lag.“

Útgáfutónleikar Hoffman verða haldnir á Sódómu 5. nóvember. Fyrst spilar sveitin þó í Volcano Café í Eyjum á föstudaginn, þar sem Slor og skítur mun án efa hljóma að minnsta kosti einu sinni.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.