Innlent

Eva Joly vill Valtý úr embætti ríkissaksóknara

Eva Joly er ekki að hætta sem ráðgjafi hjá embætti sérstaks saksóknara. Hún stillir stjórnvöldum upp við vegg; vill að meiri peningum sé dælt í rannsókn á bankahruninu og að Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari víki.

28. mars síðastliðinn var undirritaður formlegur samningur Evu Joly, fyrrverandi rannsóknardómara í Frakklandi, við embætti sérstaks saksóknara. Joly hefur komið hingað til lands um það bil tvisvar í mánuði frá því hún var ráðin til starfa.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er Eva Joly ósátt við að ekki hafi enn verið staðið við gefið loforð um að auka fjárveitingar til rannsóknarinnar. Joly telur að þörf sé á því að mun meiri peningum sé dælt inn í rannsókn og saksókn vegna bankahrunsins og er ósátt við að ekki hafi verið farið að hennar ráðum í þessum efnum. Samkvæmt Fréttastofu ríkisútvarpsins segir Eva Joly rannsóknina á efnahagshruninu munu leiða til lítils ef stjórnvöld geri ekki tvær grundvallarbreytingar. Önnur þeirra er sú að Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, víki. Joly telur Valtý vanhæfan vegna fjölskyldutengsla, en Valtýr er faðir Sigurðar Valtýssonar, sem er annar af tveimur forstjórum Exista. Hin varðar fjárframlög til rannsóknarinnar, eins og áður sagði.

Eva Joly neitaði viðtali við Stöð 2 í dag.

Heimildir fréttastofu herma að innan embættis sérstaks saksóknara sé ánægja með störf Joly og hún gegni talsvert miklu hluverki þar, meðal annars því að skapa ró, frið og traust á rannsókninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×