Fótbolti

Roy Keane hefur enga samúð með Írunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Keane liggur sjaldnast á skoðunum sínum.
Roy Keane liggur sjaldnast á skoðunum sínum. Mynd/AFP

Roy Keane, fyrrum landsliðsmaður Íra, hefur enga samúð með löndum sínum þrátt fyrir að þeir hafi misst af HM í Suður-Afríku vegna kolólöglegs marks Frakka. Thierry Henry tók boltann greinilega með hendi áður en hann lagði upp jöfnunarmark William Gallas sem nægði franska liðinu til þess að komast til Suður-Afríku.

„Þeir geta kvartað eins mikið og þeir vilja en þeir breyta því þó ekki að Frakkar eru á leiðinni á HM. Þeir verða bara að kyngja þeirri staðreynd," sagði Roy Keane í viðtali við BBC.

„Frakkar gáfu færi á sér í báðum leikjum en Írar nýttu sér það ekki. Þetta var bara sama góða sagan," sagði Keane.

„Ef ég hefði verið í búningsherberginu eftir leikinn þá hefði ég ekki eytt tímanum í að tala um þessa hendi hans Henry. Ég hefði verið að tala um það af hverju varnarmennirnir voru ekki löngu búnir að hreinsa boltann frá. Þeir höfðu alla möguleika á því," sagði Roy Keane sem lék á sínum tíma 65 landsleiki fyrir Íra.

„Ég hefði verið miklu pirraðri út í varnarmenn og markmanninn heldur en Thierry Henry. Hvernig er hægt að láta boltann skoppa í markteignum. Hvernig er hægt að láta Thierry Henry sleppa inn fyrir þig og ef boltinn fer inn í markteiginn hvar í andskotanum er þá markmaðurinn minn?," sagði Roy Keane og bætti við.

„Þetta eru hlutir sem þú lærir sem skóladrengur," skaut Keane í þessu skemmtilega viðtali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×