Erlent

Merki um vatn á einu tungla Satúrnusar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Satúrnus.
Satúrnus.

Þýskir vísindamenn telja sig hafa fundið merki um vatn og hugsanlega líf á einu af tunglum Satúrnusar.

Enkeladus er eitt af fjölmörgum tunglum Satúrnusar, næststærstu reikistjörnu sólkerfisins. Vísindamenn við Max Planck-stofnunina í Heidelberg telja sig nú geta sýnt fram á að á Enkeladusi sé að finna saltleifar sem bendi til þess að þar sé, eða hafi að minnsta kosti verið, vatn. Hafi vatn verið einhvers staðar bendir það að jafnaði til þess að þar hafi líf þróast eða geti þróast svo þetta þykir spennandi uppgötvun í heimi stjörnufræðinnar.

Geimfarið Cassini tók myndir af nokkrum tungla Satúrnusar árið 2005 og það er greining á þessum myndum og sýni sem Cassini tók með þar til gerðum skynjurum sem nú eru að skila niðurstöðum um ískristalla sem virðast innihalda salt. Frank Postberg, sem hvað mest hefur legið yfir gögnunum, segir að auk þess bendi sýrustig sýnanna eindregið til þess að lífræn efni fyrirfinnist á Enkeladusi. Enn ein skemmtileg uppgötvun á alþjóðaári stjörnufræðinnar sem er einmitt núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×