Lífið

Skandinavar í sviðsljósinu

Juvelen troðfyllti Nasa með hressilegri gleðitónlist. Fréttablaðið/Arnþór
Juvelen troðfyllti Nasa með hressilegri gleðitónlist. Fréttablaðið/Arnþór
Iceland Airwaves-hátíðin fór ágætlega af stað á miðvikudag með fjölda tónlistaratriða og gesta. Freyr Bjarnason flakkaði á milli staða og hlustaði á það sem í boði var.

Á Nasa steig fyrst á svið Me, the Slumbering Napoleon og þegar þarna var komið við sögu voru áhorfendur frekar fáir. Þetta margslungna rokktríó spilaði stutt lög, mörg hver ósungin og fórst það vel úr hendi. Greinilega efnileg sveit sem gæti látið vel að sér kveða í framtíðinni.

Næst var ferðinni heitið upp Laugaveginn og á Grand Rokk þar sem gjörsamlega var troðið af fólki. Skagasveitin Cosmic Call var komin á svið, skipuð þremur strákum og tveimur stelpum, og stóð ágætlega fyrir sínu. Líkindin við Kings of Leon voru greinileg og virtust tónarnir falla vel í kramið hjá gestunum.

Næst á svið á Grand Rokk var Pascal Pinon með fjórar unglingsstúlkur innanborðs. Því miður heyrðist lítið sem ekkert í sveitinni og er þar helst um að kenna skvaldrinu í gestunum sem yfirgnæfðu krúttlega og lágværa tónlist stúlknanna. Miðað við það sem heyrðist frá sveitinni er þó ljóst að hún gæti vel náð langt en tónleikastaðurinn hentaði henni engan veginn í þetta sinn.

Allt annað var upp á teningnum þegar Útidúr mætti til leiks. Strax með fyrstu tónunum fangaði þessi fjölmenna sveit athygli gestanna með hressilegri gleðitónlist sinni. Þrátt fyrir mikinn fjölda hljóðfæra var samhæfing þeirra prýðileg og allt gekk eins og smurð vél. Söngkonan var einnig góð og hefði hún vel mátt fá stærra hlutverk á kostnað strákanna. þó svo að þeir hafi síður en svo staðið sig illa.

Eftir hina skemmtilegu Útidúr var næst komið að sænska stuðboltanum Juvelen. Meginstraumurinn var greinilega mættur á Nasa því staðurinn var troðfullur rétt eins og Grand Rokk og ljóst að dansþyrst ungmenni ætluðu ekki að láta hinn sænska hjartaknúsara framhjá sér fara. Falsettusöngur hans, sem minnti óneitanlega á Prince, kom vel út og hljómsveitin sem var með honum var kröftug og þétt. Tónlistin kannski ekki eftirminnileg fyrir grúskara en engu að síður mjög vel framreidd.

Á Jacobsen var fámennt en góðmennt. Þar sýndi raftónlistarmaurinn Ruxpin færni sína og fyrir framan hann dönsuðu tveir mussuklæddir taglhnýtingar af mikilli innlifun í takt við kröftuga tónlistina.

Kvöldinu lauk á Sódómu þar sem norska popp-rokksveitin 22 spilaði fyrir fullu húsi. Þeir voru skrautlegir á sviði, klæddir ermalausum hettubolum hver í sínum lit og með stríðsmálningu undir augunum. Umbúðirnar voru forvitnilegar en innihaldið því miður ekki.

Ágætu Airwaves-kvöldi var þar með lokið en ljóst að stærstu nöfnin höfðu ekki enn mætt til leiks. Útidúr stal senunni þetta kvöldið og Skandínavarnir voru áhugaverðir en því miður ekkert meira en það.
Pascal Pinon Fórnarlömb fullra tónleikagesta.
Me, the Slumbering Napoleon Efnileg sveit sem spilaði snemma kvölds á Nasa.


Heitt og sveitt Áhorfendur á tónleikum Juvelen voru vel með á nótunum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.