Heimsmarkaðsverð á áli er aftur að nálgast 2.000 dollara á tonnið eftir miklar sveiflur á markaðinum í London (London Metal Exchange) undanfarinn mánuð. Í morgun var verðið komið í rétt tæpa 1.950 dollara m.v. þriggja mánaða framvirka samninga.
Álverðið hefur hækkað nokkuð ört undanfarna daga en það stóð í tæpum 1.800 dollurum um síðustu mánaðarmót. Eftir að bandaríski álrisinn Alcoa birti uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung í síðustu viku tók verðið kipp upp á við. Sem kunnugt er skilaði Alcoa óvænt hagnaði á ársfjórðungnum en flestir sérfræðingar höfðu spáð tapi hjá félaginu.
Sérfræðingar á markaði eru fremur bjartsýnir á þróun álverðs næsta kastið. Samkvæmt samantekt Bloomberg telja þeir að jafnaði að verðið á áltonni verði að meðaltali 1.918 dollarar á næsta ári og ríflega 2.200 dollarar árið 2011. Gangi þær spár eftir verður það jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf.