Innlent

Keflavíkurgangan er markaðstilraun

Grímur Atlason, sveitarstjóri Dalabyggðar.
Grímur Atlason, sveitarstjóri Dalabyggðar.
Grímur Atlason, sveitarstjóri Dalabyggðar, gefur lítið fyrir fyrirhugaða göngu á milli Vogaafleggjara og Kúagerði sem kölluð hefur verið Keflavíkurganga og verður farin á á morgun. Sveitarstjórinn kallar gönguna Kúagerðisgönguna og segir hana markaðstilraun til að beina athygli frá raunverulegum vanda Suðurnesjamanna.

Gangan verður farin á morgun frá Vogaafleggjara klukkan hálfellefu, gengnir verða 10 kílómetrar að Kúagerði þar sem samstöðufundur verður haldinn klukkan tvö. Undirbúningshópur Keflavíkurgöngunnar krefst þess að stjórnvöld gangi í takt og mæti hópnum á miðri leið. Hópurinn vill koma af stað vitundarvakningu um stöðu atvinnumála á Suðurnesja.

„Það að ganga frá Vogum að Kúagerði og kalla það Keflavíkurgöngu er nokkuð skrítið en látum það liggja á milli hluta. Hins vegar þykir mér merkilegt að forsvarsmenn Reykjanesbæjar o.fl. skuli ganga kröfugöngu þar sem lögð er áherslu á úrbætur í atvinnumálu á Suðurnesjum. Hverjir skulda Suðurnesjamönnum aðgerðir," segir sveitarstjórinn í pistli á heimasíðu sinni.

Grímur segir ábyrgðina ekki liggja hjá ríkisstjórninni heldur Suðurnesjamönnum sjálfum og stjórnmálamönnum á svæðinu sem völdu að tefla djarft.

„Kúagerðisgangan er þannig aðeins markaðstilraun þar sem markmiðið er að beina kastljósinu frá hinum raunverulegum vanda Suðurnesjamanna. Þó pólitískir vinir í Reykjavík vilji fórna vatnsbólum sínum fyrir héraðshöfðingjana á Suðurnesjum stendur ríkisstjórnin enn í lappirnar. Ég þakka herra mínum fyrir umhverfisráðherra sem hlustar ekki á patent bull. Umhverfisráðuneytið er ekki skúffa í Fasteignafélaginu Reykjanesbær," segir sveitarstjórinn að lokum.




Tengdar fréttir

Keflavíkurgangan farin á morgun

Þverpólitísk Keflavíkurganga verður farin á morgun frá Vogaafleggjara klukkan hálfellefu, gengnir verða 10 kílómetrar að Kúagerði þar sem samstöðufundur verður haldinn klukkan tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×