Lífið

Jólaeiturslanga Megasar

Megas og Senuþjófarnir taka upp í Hafnarfirði.
Megas og Senuþjófarnir taka upp í Hafnarfirði.

Megas og Senuþjófarnir hafa staðið í ströngu í Hljóðrita í Hafnarfirði. Stefnan er sett á jólatónleika í Salnum í Kópavogi 16. desember.

„Það verða mörg glæný Megasar-lög á efnisskránni og við erum aðeins byrjaðir að taka þau upp fyrir nýja plötu sem kemur á næsta ári,“ segir Guðmundur Kristinn Jónsson, gítarleikari Senuþjófanna og innsti koppur í búri Hljóðrita. „Svo erum við líka að æfa upp „ný-gömul“ Megasar-lög, eða sem sé lög sem Senuþjófarnir hafa aldrei spilað með honum. Við vildum endilega endurnýja prógrammið.“

Meðal glænýju laganna er jólalagið „Jólaeiturslangan“ og lagið „Týndir túkall“, sem Guðmundur segir að sé blanda af jóla- og kreppulagi. „Ég sver það: þetta er síðasta kreppulagið sem ég tek upp! Þetta er orðið ágætt. Ég er búinn að taka upp alveg nógu mörg kreppulög,“ segir hann og dæsir. „Við stefnum á að klára Jólaeiturslönguna um helgina og setja lagið í spilun strax eftir helgi.“

Megas segir að Jólaeiturslangan sé eins barnalegt jólalag og hægt sé að hafa það. „Það úir og grúir í viðlögum og þjóðlögum og alls kyns jarðlögum í þessu lagi. Nei nei, þetta verður ekkert á næstu plötu, heldur bara svona fyrir jólin.“

En það er sem sé stefnt að nýrri plötu? „Tja, stefnan liggur að minnsta kosti ekki framhjá næstu plötu,“ segir Megas.

Enn eru til miðar á jólatónleika Megasar og Senuþjófanna í Salnum hinn sextánda en þeim fer fækkandi. Þessir kappar skreppa svo austur á land í dag og verða með tónleika á Kaffihúsinu á Eskifirði í kvöld.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.