Fótbolti

Benitez: Það eru líka góð lið í Evrópudeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, stjóri Liverpool.
Rafa Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, segir að það þýði lítið að væla um að liðið er fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu í ár.

Liverpool tapaði í kvöld fyrir Fiorentina, 2-1, á heimavelli í lokaleik sínum í riðlakeppninni. Alberto Gilardino skoraði sigurmark Fiorentina í uppbótartíma.

Liverpool varð í þriðja sæti síns riðils og tekur því þátt í Evrópudeildinni eftir áramót.

„Við höfum nú í þrígang fengið á okkur mark á lokamínútum leikja í Meistaradeildinni," sagði Benitez eftir leikinn. „Þegar maður er ekki að vinna leiki er mikilvægt að tapa þeim ekki í blálokin. Staða okkar í kvöld hefði getað verið önnur hefðum við ekki fengið þessi síðbúnu mörk á okkur."

„En þessu fáum við ekki breytt. Við verðum bara að halda áfram að spila. Það eru líka góð lið í Evrópudeildinni og verðum við bara að taka því."

„Það sem gladdi augað í kvöld var að sjá þá Aquilani og Torres inn á vellinum. Það var mjög jákvætt fyrir framhaldið," bætti Benitez við.

„Aquilani sýndi hvað hann getur en það er augljóst þurfum við að vinna í því að bæta leikformið hans."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×