Lífið

Fullorðnir og hjátrúarfullir

Á móti sól Hljómsveitin vinsæla gefur á morgun út sína áttundu plötu, sem heitir einfaldlega 8.
Á móti sól Hljómsveitin vinsæla gefur á morgun út sína áttundu plötu, sem heitir einfaldlega 8.

Popphljómsveitin Á móti sól gefur á morgun út sína áttundu plötu. Meðlimir sveitarinnar hafa fullorðnast undanfarin ár, svo mjög að tveir þeirra eru á leiðinni í aðgerðir á næstunni.

Upptökur á 8 hófust í Danmörku árið 2006 en síðan hefur ýmislegt gengið á. Söngvarinn Magni fór í Rockstar-ævintýrið og vegna alls brjálæðisins í kringum það var ákveðið að gefa í staðinn út safnplötu um jólin 2006 með þremur nýjum lögum. Hún féll gríðarvel í kramið og seldist í tæplega átta þúsund eintökum, sem kemur ekki á óvart miðað við dyggan aðdáendahóp Á móti sól.

„Árið eftir vorum við lítið að spila. Magni kom með sólóplötu og það passaði ekki að koma með plötu þá, þannig að við ákváðum að hún kæmi út fyrir jólin 2008 en þá kom kreppa,“ segir Heimir Eyvindarson hljómborðsleikari. „Við vonuðumst til að kreppan myndi líða hjá en svo hefur það náttúrulega ekkert gerst. Þá var ákveðið haustið 2008 að fresta henni um ár og núna er hún loksins komin.“

Sex ár eru liðin síðan síðasta plata Á móti sól, eingöngu með frumsömdum lögum, kom út. Hún hét Fiðrildi og náði gullsölu, fimm þúsund eintökum. Í kjölfarið komu út tvær tökulagaplötur sem seldust eins og heitar lummur, í um tuttugu þúsund eintökum. Heimir segir þá félaga hafa þroskast mikið síðan Fiðrildi kom út og það sannist á nýju plötunni.

„Við erum orðnir fullorðnir menn. Árið 2006 var ég sem lagahöfundur búinn að taka ákvörðun um að taka þetta fastari tökum. Við vorum allir ákveðnir í að gefa okkur meiri tíma í þetta og reyna að vera svolítið alvarlegri. Það voru alls konar hlutir sem við ræddum markvisst um, eins og að vanda texta betur og allt svoleiðis,“ segir hann.

Til marks um það hversu fullorðnir þeir félagar eru orðnir er gítarleikarinn Sævar Helgason á leiðinni í mjaðmaskiptiaðgerð. Auk þess þarf Magni að gangast undir sína aðra magaaðgerð vegna bakflæðis. Fyrir vikið ætlar Á móti sól í frí eftir áramót í óákveðinn tíma.

„Þetta er fyrsta alvöru fríið. Við tókum smá frí þegar Magni fór í Rockstar en við höfum aldrei tekið yfirlýst frí,“ segir Heimir. „Það verður ágætt að hvíla sig aðeins og hlaða batteríin. Við verðum byrjaðir aftur áður en við vitum af.“

Nafn plötunnar 8 er tilvísun í fjölda platna með Á móti sól en einnig táknar talan allt í senn, vaxandi hamingju, hið óendanlega og eilífa vináttu.

„Hönnuðinum okkar fannst þetta flott og fór að segja okkur alla þessa hluti um hvað áttan táknaði. Hann er á kafi í allri þessari táknfræði. Við erum svo sem ekkert á kafi í hindurvitnum og hjátrú en við erum reyndar pínu hjátrúarfullir,“ segir Heimir. „Platan kemur út á fimmtudegi því ef við frumflytjum lög eða sendum frá okkur plötu er það alltaf á fimmtudögum. Er það ekki fimmtudagur til frægðar? Er maður ekki alltaf að vona að maður verði frægari og frægari?“ segir hljómborðsleikarinn og hlær.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.