Körfubolti

Terry tryggði Dallas sigur - Ellis með 45 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Terry fagnaði sigurkörfunni á sérstakan hátt.
Jason Terry fagnaði sigurkörfunni á sérstakan hátt. Mynd/AP

Jason Terry tryggði Dallas Mavericks 104-102 sigur á Philadelphia 76ers með því að skora sigurkörfuna 1,4 sekúndum fyrir leikslok. Dirk Nowitzki skoraði 28 stig og Jason Kidd var með 22 stig og 11 stoðsendingar en Dallas var nærri því búið að missa niður 17 stiga forskot í leiknum. Willie Green skroaði 23 stig fyrir Philadelphia.

Andrew Bogut snéri aftur úr meiðslum og var með 22 stig og 15 fráköst í 99-97 sigri Milwaukee Bucks á Chicago Bulls. Milwaukee-liðið var búið að tapa fjórum leikjum í röð án hans. John Salmons skoraði 23 stig, Luol Deng var með 22 stig og 14 fráköst og Joakim Noah skoraði 16 stig og tók 17 fráköst hjá Chicago.

Carlos Boozer var með 24 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar í öruggum 27 stiga sigri Utah Jazz á Memphis Grizzlies en þetta var þriðji sigur Utah í röð. Ronnie Brewer bætti við 25 stigum en hjá Memphis var O.J. Mayo atkvæðamestur með 20 stig.

Monta Ellis var í miklu stuði í 126-107 sigri Golden State Warrriors á Indian Pacers en hann setti nýtt persónulegt met með því að skora 45 stig í leiknum. Ellis hitti úr 15 af 27 skotum sínum og 14 af 16 vítum.

Mike Dunleavy var með 22 stig hjá Indiana alveg eins og Danny Granger.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×