Sport

Hatton ætlar að koma Manchester aftur á kortið í hnefaleikum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Manny Pacquiao og Ricky Hatton.
Manny Pacquiao og Ricky Hatton. Nordic photos/AFP

Fyrrum IBF -og IBO-léttveltivigtar heimsmeistarinn Ricky Hatton kveðst enn vera óákveðinn um hvort hann snúi aftur í hringinn eftir vandræðalegt tap gegn Manny Pacquiao í maí síðastliðnum þó svo að hann sé búinn að gefa sterkar vísbendingar um að hann sé ekki endanlega hættur.

Þessa stundina einbeitir kappinn sér þó að því að skipuleggja bardaga fyrir aðra hnefaleikamenn og vonast til þess að geta rifið upp nafn heimaborgar sinnar Manchester í hnefaleikaheiminum.

„Sem skipuleggjandi hef ég hug á að setja upp bardaga víðs vegar um Bretland en þessa stundina finnst mér Manchester vera kjörinn staður því þaðan koma margir fyrrum meistarar og framtíðar meistarar í hnefaleikum.

Það besta er að verða meistari sjálfur en það næst besta er að hjálpa öðrum að komast á þann stall og það er það sem ég er að reyna að gera," segir Hatton sem hefur þegar sannfært Michael Brodie að snúa aftur í hringinn eftir fjögurra ára hlé.

„Ég er að mörgu leyti í svipuðum sporum og Brodie. Ég er að hlaða batteríin þannig að ef ég ákveð að snúa aftur þá verð ég hungraður og tilbúinn," segir Hatton.





Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×