Innlent

Afplánun á Íslandi ekki skoðuð fyrr en dómur fellur í Brasilíu

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Afplánun hér á landi kemur ekki til tals fyrr en Ragnar Hermannsson hefur hlotið sinn dóm í Brasilíu segir dómsmálaráðherra. Unnið er að samningi milli Brasilíu og Íslands um flutning á föngum. Ragnar varar aðra við því að smygla eiturlyfjum, honum hafi aldrei liðið verr.

Tveir fangar afplána nú dóma í Brasilíu. Ingólfur Rúnar Sigurz var handtekinn í ágúst 2006 með rúm 12 kg af hassi og afplánar nú 6 ára og 8 mánaða fangelsi. Karl Magnús Grönvold var handtekinn tæpu ári síðar með tvö og hálft kíló af kókaíni og afplánar tæplega fjögurra ára fangelsisvist. Þeir hafa báðir óskað eftir því við yfirvöld í Brasilíu að afplána dómana hér á landi.

Enginn samningur er milli Brasilíu og Íslands um fullnustu refsidóma. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra segir að unnið hafi verið að slíkum samningi frá síðasta ári. Ekki sé þó hægt að segja til um hvenær þeirri vinnu verði lokið.

Ísland er með 3 samninga við önnur ríki um flutning á föngum. Einn slíkra nær til Spánar en hefði Ragnar verið handtekinn þar, þangað sem leið hans lá, væri málið öðruvísi vaxið.




Tengdar fréttir

Alræmd brasilísk fangelsi

Cotel-fangelsið nærri Recife er alræmt fyrir illan aðbúnað og uppreisnir. Það, líkt og raunar mörg önnur fangelsi í Brasilíu, hefur sætt harðri gagnrýni mannréttindasamtaka. Árið 2007 létust nokkrir fangar í uppreisn í fangelsinu og í febrúar í fyrra var einnig gerð þar uppreisn. Þá slapp 51 fangi úr fangelsinu. Í nokkurra ára gamalli skýrslu um fangelsi í Brasilíu kemur fram að árið 2002 hafi 303 fangar verið myrtir í brasilískum fangelsum af samföngum sínum.

Íslendingur tekinn með sex kíló af kókaíni í Brasilíu

Tuttugu og fjögurra ára gamall Íslendingur var handtekinn á flugvelli í Brasilíu á leið sinni til Spánar með tæp sex kíló af hreinu kókaíni í fórum sínum. Fulltrúar alríkislögreglu Brasilíu handtóku piltinn á Alþjóðaflugvellinum í Recife á föstudagskvöldið en hann var þá á leið til Malaga á Spáni. Þetta kom fram í hádegisfréttum Rúv en brasilískir fjölmiðlar hafa sagt hann heita Ragnar Hermannsson.

Fjölmiðlar í Brasilíu sýna máli Ragnars mikinn áhuga - myndband

Brasilískir fjölmiðlar fjalla mikið um mál Ragnars Erlings Hermannssonar sem handtekinn var á föstudagskvöldið með tæp sex kíló af kókaíni á Alþjóðaflugvellinum í Recife í Brasilíu. Fíkniefnafundurinn mun vera sá stærsta á árinu á flugvellinum en brasilískur karlmaður sem var á leið í sama flug og Ragnar var tekinn með kíló af kókaíni.

Fjölskylda Ragnars í sjokki

„Við erum bara í sjokki og erum að reyna að anda frá mínútu til mínútu til þess að geta gert eitthvað í þessum málum."

Var hættur að mæta í vinnuna

„Mér fannst eins og hann væri kominn í einhverja óreglu en ég get ekki fullyrt það. Hann svaf yfir sig í hádeginu og kom of seint. Þess vegna urðum við að láta hann fara," segir Linda.

Íslenskir dópsmyglarar í Brasilíu: Fjórir teknir á fjórum árum

Ragnar Erling Hermannsson sem handtekinn var í borginni Recife í Brasilíu á föstudagskvöldið fyrir innflutning á tæpum sex kílóum af kókaíni er ekki fyrsti íslendingurinn sem handtekinn er fyrir fíkniefnasmygl þar í landi. Frá því í júní 2006 hafa þrír aðrir íslendingar verið handteknir vegna fíkniefnasmygls, ýmist á leið úr landi eða inn í landið. Íslendingarnir hafa verið með kókaín, hass og barnapúður og voru allir dæmdir til fangelsisvistar í landinu.

Brasilíufangi: Smyglaði dópi vegna fíkniefnaskuldar

20 ára fangelsisvist bíður 25 ára íslendings sem handtekinn var í Brasilíu á föstudaginn með mikið magn af sterku kókaíni. Lögregla þar í landi segir hann hafa farið í smyglferðina til að greiða fyrir dópskuld hér á íslandi.

Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra skoðar mál Ragnars

Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hefur sent fyrirspurn til Brasilíu vegna máls Ragnars Erlings Hermannssonar þar sem óskað er allra upplýsinga sem að gagni koma. Þetta segir Smári Sigurðsson yfirmaður Alþjóðadeildar við fréttastofu. Ragnar Erling var handtekinn á föstudaginn í síðustu viku í bænum Recife í Brasilíu með tæp 6 kíló af hreinu kókaíni.

Frá Brasilíu til Íslands - Svona smygla þeir dópinu

Íslendingurinn sem tekinn var í Brasilíu ætlaði að notfæra sér velþekkta smygleið úr undirheimunum til að koma fíkniefnunum til Íslands. Heimildir fréttastofu herma að smyglleiðin hafi margoft verið notuð til að koma kókaíni til landsins.

„Ég vonaði að þetta væri bara ekki satt“

„Það er rosalegt að vita af honum þarna,“ segir Hermann Þór Erlingsson, faðir Íslendings sem situr nú í brasilísku fangelsi og bíður dóms vegna kókaínsmygls. Hann hefur enn ekkert heyrt í syni sínum. „Ég frétti þetta á mánudaginn. Allan daginn var ég að vona að þetta væri bara ekki satt. Ég er búinn að vera í sjokki síðan og veit satt að segja ekki mitt rjúkandi ráð,“ segir Hermann.

Tugir fanga sluppu úr fangelsi Ragnars í fyrra

Gæsluvarðhaldsfangelsið þar sem Ragnar Erling Hermannsson er vistaður í kjölfar þess að hann var handtekinn á flugvellinum í Recife með sex kíló af kókaíni komst í fréttirnar í Brasilíu í febrúar á síðasta ári þegar 51 fangi slapp úr vistinni. Þegar fangaflóttinn átti sér stað voru 20 fangaverðir í fangelsinu en þeir voru allir lausráðnir og höfðu hlotið litla þjálfun. Einn daginn mættu aðeins fimm til vinnu og nýttu fangarnir sér mannfæðina og ruddust út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×