Sport

Mótherjarnir bera mikla virðingu fyrir Federer

Nordic Photos/Getty Images

Svissneski tenniskappinn Roger Federer hefur átt erfitt uppdráttar á árinu og hefur enn ekki unnið mót. Hann missti toppsætið á heimslistanum í hendur Rafael Nadal fyrir nokkru.

Það var því táknrænt þegar Federer missti stjórn á skapi sínu á móti í Miami þar sem hann braut tennisspaða í reiðikasti, því hann er venjulega annálað prúðmenni á vellinum.

Keppinautar Federer hafa vissulega komið auga á að ekki er allt með felldu, en þeir ætla ekki að falla í þá gryfu að afskrifa hann.

"Hann er búinn að komast í úrslitaleik á risamóti og í undanúrslit á tveimur meistaramótum," árétti Rafael Nadal þegar hann var spurður út í Federer.

Novak Djokovic, sem er í þriðja sæti listans, var hissa á atvikinu í Miami.

"Federer vann allt sem hægt var að vinna í fjögur ár, en nú þegar hann tapar nokkrum, segja menn að hann sé í krísu," sagði Djokovic.

"Mér fannst reyndar skrítið að hann hafa brotið spaðann sinn í Miami, því hann heldur yfirleitt alltaf ró sinni. En svona lagað kemur fyrir þegar maður er gramur á vellinum," sagði Djokovic.

Federer hefur tapað fyrir öllum helstu keppinautum sínum á heimslistanum að undanförnu og því hefur verið haldið fram að það sé að setjast á sálina á honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×