Viðskipti innlent

Mikil viðbrögð við kaupum

Styrmir Þór Bragason
Styrmir Þór Bragason
Samkeppniseftirlitið hefur veitt MP Banka undanþágu frá samkeppnislögum vegna kaupa bankans á útibúaneti SPRON og Netbankanum, sem gera mun bankanum kleift að opna útibúin næstkomandi mánudag.

Lögum samkvæmt er óheimilt að framkvæma samruna fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um hann, en á því var gerð undantekning, segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri eftirlitsins. Endanleg afstaða til samrunans verður tekin þegar öll gögn liggja fyrir.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka, segir að fáist svipuð undanþága frá Fjármálaeftirlitinu geti áform um að opna höfuðstöðvar og tvö útibú SPRON næstkomandi mánudag gengið eftir.

„Við höfum fengið gríðarlega góð viðbrögð, fengið endalaust af tölvupósti og símhringingum í allan dag. Hér hefur allt verið á öðrum endanum við að reyna að upplýsa viðskiptavini SPRON og annarra banka um hvað er framundan," segir Styrmir.

Endurreisn SPRON virðist falla í góðan jarðveg, bæði hjá fyrrverandi viðskiptavinum SPRON og viðskiptavinum annarra banka, segir Styrmir.

MP Banki hefur þegar ráðið nokkra af fyrrverandi stjórnendum SPRON til starfa, og þeir munu koma að ráðningu fleiri starfsmanna. MP Banki skuldbatt sig til að ráða að minnsta kosti 45 af fyrrverandi starfsmönnum SPRON.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×