Viðskipti erlent

Paradísareyja Ingmar Bergman seld á uppboði

Eyjan Farö í sænska skerjagarðinum verður bráðlega sett á uppboð en eyjan var fyrrum í eigu sænska leikstjórans Ingmar Bergman.

Eyjan tengist mjög verkum Bergman, þar var m.a. myndin En Passion tekin upp árið 1969 auk þess að leikstjórinn skrifaði mörg af handritum sínum á eyjunni.

Að sögn fréttastofunnar AFP er mikill áhugi fyrir eyjunni innan sem utan Svíþjóðar og er áætlað verð fyrir hana komið í 4 milljónir evra eða hátt í 800 milljónir kr.

Með í kaupunum fylgja fjögur hús á eyjunni en stærsta húsið hannaði Bergman sjálfur í samvinnu við arkitektinn Kjell Abramson. Meðal húsanna er uppgert bóndabýli frá árinu 1854 sem Bergman innréttaði sem sinn eigin kvikmyndasal.

Nýlega vildi sænskur sjóður kaupa eyjuna og gera hana að safni en sjóðurinn varð að gefast upp þar sem hann réð ekki við ásett verð.

Sjálfur lést Bergman árið 2007 en hann náði að gera 40 kvikmyndir á ferli sem spannaði meir en hálfa öld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×