Lífið

Ísland í aðalhlutverki hjá Metropolitan

Sjónrænn leikstjóri Sýningar Roberts Lepage þykja mikið sjónarspil og nú hyggst þessi leikstjóri nýta sér íslenskt landslag í uppfærslu Metropolitan-óperunnar á Niflungahring Wagners.NOrdicPhotos/afp
Sjónrænn leikstjóri Sýningar Roberts Lepage þykja mikið sjónarspil og nú hyggst þessi leikstjóri nýta sér íslenskt landslag í uppfærslu Metropolitan-óperunnar á Niflungahring Wagners.NOrdicPhotos/afp

Ísland verður í forgrunni í uppfærslu Metropolitan-óperunnar í New York á Niflungahring Richards Wagner. Þetta upplýsir leikstjóri sýningarinnar, hinn virti Robert Lepage, í viðtali við Wall Street Journal. Þetta er talið vera djarfur leikur hjá þessu óperuhúsi, ekki hafi verið búin til ný útgáfa af þessu verki Wagners í 23 ár og þá er Lepage ekki feiminn við að reyna eitthvað nýtt. Hann þótti til að mynda brjóta hálfgert blað með útgáfu sinni af Bölvun Fausts eftir Berlioz sem sýnd var á sama stað í fyrra.

Lepage segir í samtali við Wall Street Journal að hann heimsæki Ísland eins oft og hann geti. Og að landið og landslagið muni verða fyrirferðarmikið í uppfærslunni. „Wagner notaði íslensku fornsögurnar til að færa þýsku mýturnar frá Grikkjum og Miðjarðarhafinu til sinna norrænu róta,“ segir Lepage í viðtalinu og byrjar í kjölfarið að dásama Ísland og íslenskt landslag. „Ísland er bara önnur pláneta, heimur út af fyrir sig. Jörðin er ótrúlega heit, þeir þurfa ekki einu sinni að hita húsin sín og þú getur synt í ám þrátt fyrir snjó. Þannig að þegar þú hefur verið á Íslandi og hugsar svo um Niflungahringinn þá sérðu hann ekki sömu augum.“

Lepage þykir í raun vera einstakt fyrirbæri í leikhúsheiminum, sýningar hans hafa hlotið mikið lof úti um allan heim og ef marka má skrif Wall Street Journal þá er hann vinsælastur meðal „hipp-leikhúsgesta“. Hann hefur jafnframt lýst því yfir að í óperuforminu geti allar listir sameinast í eitt.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.