Lífið

Bókaútgefandinn á bak við linsuna

Jóhann Páll segist fara með myndavélina sína hvert sem er, meira að segja inn á klósett enda sé birtan þar engri lík.
Jóhann Páll segist fara með myndavélina sína hvert sem er, meira að segja inn á klósett enda sé birtan þar engri lík.
Fréttablaðið hefur að undanförnu greint frá því að bókaútgefandinn Jóhann Páll Valdimarsson sé maðurinn á bak við fjölmargar ljósmyndir sem prýða bækur Forlagsins. Og þótti því rétt að heyra í Jóhanni sjálfum.

„Ég hef í lífinu eiginlega aldrei átt nein önnur áhugamál, vinnan hefur alltaf átt hug minn allan. Ég get ekki einu sinni farið í bíó án þess að hugsa um bækur en þegar ég er að sinna ljósmyndunum, vinna þær og framkalla þá gleymi ég bæði stund og stað,“ segir Jóhann Páll í samtali við Fréttablaðið. Að undanförnu hafa birst molar um að Jóhann bæði kápumyndina af Vigdísi Finnbogadóttur sem prýðir ævisögu forsetans fyrrverandi. Þá hafi hann einnig myndað flesta rithöfunda sem eru á mála hjá Forlaginu og þar að auki hafi Jóhann myndað fyrir þær bækur sem notast við ljósmyndir, eins og ævisögu Snorra Sturlusonar. „Mér var meira bara ýtt út í þetta en að ég hafi tranað mér fram. Þetta var kannski hluti af sparnaðaraðgerðum og nú er svo komið að áhugamálið er orðið hluti af vinnunni, eins kaldhæðnislega og það kann að hljóma.“

Ljósmyndaáhugi útgefandans kviknaði fyrst í kringum sautján ára aldurinn en þá fékk hann sína fyrstu myndavél. Hún var fremur frumstæð en útgefandinn kom sér upp framköllunargræjum og hóf myndavélina á loft. „Svo komu stafrænu myndavélarnar og í framhaldi af því fór ég að læra á myndvinnsluforrit, fór á námskeið og hef verið nokkuð duglegur við að lesa mér til um ljósmyndun og ljósmyndavinnslu,“ segir Jóhann en hann á í dag Canon Mark 2. „Góð ljósmynd er hins vegar ekki háð bestu tækninni, það er augað sem skiptir mestu máli.“ Jóhann viðurkennir engu að síður að hann sé heillaður af græjum og tækninýjungum. Hann sé ekkert annað en stór strákur. „Ég hef alltaf verið mikið fyrir dót; hvort sem það eru talstöðvar, sjónaukar eða tölvur. Mér hefur hins vegar ekki fundist neitt nýtt koma að undanförnu nema þessir GSM-símar en þeir eru í mínum huga verkfæri djöfulsins og fara létt með að rústa tilveru fólks,“ segir Jóhann í fullri alvöru enda sjálfur ekki með neitt slíkt djöflatól.

En það eru ekki bara rithöfundar og viðfangsefni þeirra sem eiga hug Jóhanns allan. Hann segist til að mynda síðustu fimm árin hafa gert meira af því að fara í Skorradalinn í Hvalfirðinum í sérstakar ljósmyndaferðir. Og svo myndar hann kýr og sjálfan sig inni á klósetti. „Kýrnar virka þannig á mig að þær hafi ekki hugmynd um hvað er að gerast í kringum sig, þær eru algjörlega hrekklausar. Inni á klósettum er síðan ákaflega sérstök birta og ég á margar myndir af sjálfum mér inni á klósettum úti um allan heim.“ Jóhann útilokar hins vegar að hann muni opna ljósmyndasýningu eða gefa út bók með myndum eftir sjálfan sig. „Nei, ég vil ekkert vera að monta mig af þessu, þetta er bara áhugamálið mitt.“- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.