Lífið

Toyota stelur mynd íslensks ljósmyndara

snorri gunnarsson Ljósmynd eftir Snorra var notuð án leyfis í netauglýsingu fyrir Toyota.
snorri gunnarsson Ljósmynd eftir Snorra var notuð án leyfis í netauglýsingu fyrir Toyota.

„Það er glatað þegar stórfyrirtæki gera þetta sem eiga nóg af peningum," segir ljósmyndarinn Snorri Gunnarsson.

Ljósmynd eftir Snorra var notuð án leyfis í kanadískri netauglýsingu Toyota þar sem nýr jeppi umboðsins er auglýstur. Myndin var tekin af ljósmyndasíðunni Flickr ásamt ljósmyndum frá fjörutíu öðrum ljósmyndurum, jafnt atvinnu- sem áhugamönnum. Enginn þeirra var spurður leyfis og er Snorri vitaskuld ósáttur við vinnubrögðin.

„Fyrst hélt ég að þeir væru búnir að gera samning við Flickr en svo höfðu þeir bara valið úr og hvorki látið kóng né prest vita," segir Snorri, sem er búsettur í Kanada. Hann kennir þó ekki Toyota beint um verknað­inn heldur auglýsingastofunni Saatchi & Saatchi sem bjó til auglýsinguna. Stofan hefur þegar beðið Snorra afsökunar og ber við að um tæknileg mistök hafi verið að ræða. Snorri trúir því mátulega, enda hefur auglýsingastofan að hans sögn áður orðið uppvís að vafasömum vinnubrögðum. Núna standa yfir samningaviðræður um að mynd Snorra verði áfram notuð í auglýsingunni og þá fær hann að sjálfsögðu eitthvað fyrir sinn snúð eins og eðlilegt er.

Þrátt fyrir að mynd hans, sem var tekin í Kanada, hafi verið tekin ófrjálsri hendi er Snorri sammála því að það sé vissulega heiður að fá hana birta í Toyota-auglýsingu. „Það er alltaf voða gaman að sjá myndina sína einhvers staðar en það hefði verið 100% gaman ef maður hefði verið beðinn um það. Ef þeir hefðu haft samband við þetta fólk hefði helmingurinn leyft þeim að nota myndina ókeypis." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.