Enski boltinn

Rooney ætlar að bæta metið sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í leiknum í kvöld.
Wayne Rooney í leiknum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Wayne Rooney segir að það myndi koma sér mikið á óvart ef hann myndi ekki bæta markamet sitt á núverandi leiktíð.

Rooney hefur mest skorað 23 mörk á einu og sama tímabilinu en í kvöld skoraði hann sitt fimmtánda mark á núverandi tímabili er hann skoraði eitt marka Manchester United í 5-0 sigri á Wigan.

„Ég vona að ég bæti minn besta árangur," sagði Rooney eftir leikinn í kvöld. „Ef ég næ ekki að skora átta mörk eftir áramót er eitthvað virkilega mikið að."

Alex Ferguson, stjóri United, og Roberto Martinez, stjóri Wigan, hældu Rooney eftir leikinn.

„Wayne var frábær, rétt eins og á sunnudaginn. Það var frábært sjá hvað hann býr yfir mikilli orku og vilja," sagði Ferguson.

„Wayne Rooney hefur sýnt allt tímabilið hversu þroskaður leikmaður hann er. Hann er í þeim hópi leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar sem eru í heimsklassa," bætti Martinez við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×