Innlent

Talaði ekki við ferðamálaráðherrann um hvalveiðar

Þeir Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson gagnrýna báðir ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra að leyfa veiðar á Langreyðum næstu fimm árin sem tekin var í gær. Steingrímur segir að um sé að ræða ákaflega sérkennilega stjórnsýslu hjá ráðherra sem sitji í starfsstjórn. „Þetta er ekki stórmannlegt," sagði Steingrímur.

Össur segist vilja endurskoða þessa ákvörðun í nýrri ríkisstjórn. Hann sagði að sér litist ekkert á það að ráðhera taki svo umdeilda ákvörðun án þess að ráðfæra sig við ríkisstjórnina. Hann segir að það hafi ráðherra ekki gert. „Hann talaði í það minnsta ekki við ferðamálaráðherrann," segir Össur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var einnig spurður út í málið í dag. Hann sagðist ekki hafa kynnt sér málið nægilega vel til þess að tjá sig ítarlega um það en benti þó á að afstaða Framsóknarflokksins hefði verið sú að ef markaður sé fyrir hvalkjöt þá eigi að nýta þá auðlind.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×