Lífið

Skeggkokkar verða jólasveinar

Hvergi af baki dottnir Úlfar og Tómas eru hvergi af baki dottnir, þeir ætla að fara í jólasveinaleik fyrstu vikuna í aðventu.Fréttablaðið/GvA
Hvergi af baki dottnir Úlfar og Tómas eru hvergi af baki dottnir, þeir ætla að fara í jólasveinaleik fyrstu vikuna í aðventu.Fréttablaðið/GvA

„Þetta er orðið þannig að maður er vakinn á morgnana og tilkynnt hvernig þetta hafi farið. Menn bíða því spenntir eftir þessu,“ segir Úlfar Eysteinsson, martreiðslumaður á Þremur Frökkum. Hann og Tómas Tómasson, oftast kenndur við Hamborgarabúlluna, eru orðnar hálfgerðar stýrivaxtahetjur. Þeir hafa ekki skert skegg sitt í næstum hálft ár og ætla sér ekki að gera það fyrr en stýrivextirnir eru komnir niður fyrir tíu prósent. Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað á fundi sínum í gærmorgun að lækka stýrivexti niður í ellefu prósent þannig að enn sér ekki fyrir endann á skeggvexti kokkanna. Þeir verða að minnsta kosti skeggprúðir þegar jólaösin gengur í garð. „Við gefumst ekkert upp,“ segir Úlfar.

Úlfar segir að nú sé það bara plan b. Skeggmótmælin verði því ögn meira áberandi en undanfarna mánuði. „Ég á að sjá um að redda hestvagninum og Tómas ætlar að útvega jólasveinabúninga á okkur og svo förum við í jólasveinaleik í fyrstu viku aðventunnar,“ segir Úlfar. Félagarnir ætla að fá Seðlabankann til að styrkja sig en þeir ætla að gefa öllum leikskólabörnum á höfuð­borgarsvæðinu litla gjöf. Báðir segjast þeir eiga hauk í horni í Svörtuloftum. Úlfar vonast jafnframt til að aðrir menn taki sig til og fari að safna skeggi til að sýna samstöðu. „En þeir lækkuðu þó vextina aðeins, þeim er ekki alls varnað. Þetta hefði þó mátt vera meira.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.