Lífið

Smökkuðu sæagrasúpu

Ljúffeng súpa. Vel fór á með þeim Snorra, Kristínu, Badda og Maríu á Sægreifanum þar sem þau borðuðu sæagrasúpu á meðan þau ræddu um tónlistina.
Fréttablaðið/Valli
Ljúffeng súpa. Vel fór á með þeim Snorra, Kristínu, Badda og Maríu á Sægreifanum þar sem þau borðuðu sæagrasúpu á meðan þau ræddu um tónlistina. Fréttablaðið/Valli

Snorri Helgason, Bjarni Lárus Hall, María Magnús­dóttir og Kristín Bergsdóttir eru öll að gefa út sínar fyrstu sólóplötur um þessar mundir. Blaðamaður hitti þau á Sægreifanum og spurði þau spjörunum úr á meðan þau gæddu sér á sæagrasúpu sem er ný á matseðlinum.

Bjarni Lárus Hall, betur þekktur sem Baddi úr hljómsveitinni Jeff Who? hefur nú sent frá sér sína fyrstu sólóplötu sem nefnist The Long Way Home. Snorri Helgason úr Sprengjuhöllinni er einnig að þreyta frumraun sína sem sólólistamaður og sendi nýverið frá sér plötuna I‘m Gonna Put My Name On Your Door. Þær María og Kristín eru hins vegar að stíga sín fyrstu skref í tónlistarútgáfu, María með plötuna Not Your Housewife og Kristín með plötuna Mubla.

Er mikil vinna fyrir tónlistarmenn að koma sér á framfæri um jólin?

„Maður þarf bara að vera svolítil frekja,“ segir María. „Manni er yfirleitt vel tekið, en maður þarf að vera duglegur að láta vita af sér,“ segir Kristín. „Ég reyndi að vera með fyrir jólatörnina, en mér var sagt að það væru 200 titlar að koma út fyrir jól svo það er ekkert djók,“ segir María. Þeir Baddi og Snorri segja það mikil viðbrigði að gefa út plötur upp á eigin spýtur.

„Það er allt öðruvísi og því fylgja bæði kostir og gallar,“ segir Baddi og Snorri tekur undir. „Maður ræður öllu, en þarf líka að gera allt,“ segir hann.

Sæagrasúpan er borin fram með brauðkörfu og smjöri. „Það eru sæbjúgu ofan í,“ segir Kolbrún sem ber fram súpuna og sýnir bita í einni skálinni. „Hvað er það?“ spyr Kristín „Eitthvert loðdýr?“ segir hún og hlær.

Eruð þið stressuð yfir viðbrögðum fólks þegar tónlistin ykkar er annars vegar?

„Já, ég verð að viðurkenna að ég er mjög stressuð, en ég hef fengið frekar jákvæða umfjöllun. Maður þarf að læra að taka hvorki inn á sig það slæma né það góða,“ segir María og Baddi tekur í sama streng.

„Mér finnst þetta mjög stressandi. Þegar maður er búinn að vera í hljómsveit fær maður kannski meiri umfjöllun, sem er frekar ósanngjarnt því ég er ekki að gera neitt annað en María og Kristín, en á móti kemur er að þeirra diskar eru dæmdir út frá því hvernig þeir eru á meðan ég er hræddur um að tónlistin mín verði tengd við hljómsveitina,“ segir hann. Kristín og Snorri eru á öðru máli. „Ég er bara ótrúlega spennt að fá álit frá einhverjum sem þekkir mig ekki neitt,“ segir hún og Snorri er jafnafslappaður. „Ég hef verið skeindur svo harkalega að ég er ýmsu vanur,“ segir hann og brosir.

Sæagrasúpan rann ljúflega niður og allar skálar eru tómar. En skyldu kynörvandi áhrif súpunnar vera farin að láta á sér kræla? „Hún er ekki farin að kikka inn strax,“ segir Snorri. - ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.