Lífið

Töframannshundur í Oliver

Baldur Brjánsson ásamt tíkinni Mjöll sem fer með hlutverk í söngleiknum Oliver! í Þjóðleikhúsinu.
fréttablaðið/gva
Baldur Brjánsson ásamt tíkinni Mjöll sem fer með hlutverk í söngleiknum Oliver! í Þjóðleikhúsinu. fréttablaðið/gva

„Þetta er svo góður hundur og vel upp alinn. Hann fer létt með þetta,“ segir töframaðurinn fyrrverandi, Baldur Brjánsson.

Tíkin hans, bolabíturinn Mjöll, leikur í söngleiknum Oliver! sem verður settur á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu annan í jólum í leikstjórn Selmu Björnsdóttur. „Selma heimsótti mig einhvern tímann fyrir ári. Hún vissi að ég átti hund. Svo hringdu þeir frá Þjóðleikhúsinu og spurðu hvort þetta væri einhver möguleiki. Ég gaf náttúrlega grænt ljós á það með vissum skilyrðum,“ segir Baldur.

Mjöll verður í áberandi hlutverki sem hundur vonda karlsins Bills Sikes, sem Þórir Sæmundsson leikur, og verður hún ansi ófrýnileg með lepp fyrir öðru auganu. „Hún er mjög meðfærileg og stillt,“ segir Baldur og er sannfærður um að hún eigi eftir að slá í gegn í söngleiknum. „Hún er voðalega hlýðin og hún getur velt sér yfir og gert einhverjar kúnstir.“

Baldur er mikill hundavinur og ekki er langt síðan hann átti tvo bolabíta og fimm hvolpa. Hafði hann í nógu að snúast á heimilinu við umönnun þeirra eins og Fréttablaðið greindi frá í fyrra. Síðan hefur ýmislegt breyst því bæði bolabítarnir og hvolparnir eru horfnir á braut. „Annar bolabíturinn dó og hinn fór á gott heimili. Í millitíðinni skipti ég um parket á allri íbúðinni því það var orðið svo illa farið,“ segir Baldur, sem í framhaldinu eignaðist hina þriggja ára Mjöll sem hann er ákaflega ánægður með.

Hún verður reyndar ekki eini hundurinn í sýningunni því staðgengill hennar verður nágrannahundur sjálfs Þjóðleikhússtjórans, Tinnu Gunnlaugsdóttur.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.