Viðskipti erlent

Fær 10 milljónir á ári fyrir að klæðast stuttermabolum

Netið hefur opnað ýmsa nýstárlega möguleika fyrir marga til að græða peninga. Þeirra á meðal er Jason Sadler sem fær 85.000 dollara eða rúmlega 10 milljónir kr. á ári fyrir það eitt að klæðast stuttermabolum með ýmsum auglýsingum á.

Hugmynd Sadler er einföld. Fá fyrirtæki til að borga þér fyrir að klæðast stuttermabol með áprentuðu lógói fyrirtækisins á. Og nota svo allan daginn til að vera áberandi á félagssíðum netsins eins og Facebook, YouTube og Twitter.

Samkvæmt frétt um málið á Reuters stofnaði hinn 26 ára gamli Sadler félag sitt, www.iwearyourshirt.com , á síðasta ári. Hann rukkar fyrirtæki um 45.000 kr. á dag fyrir að klæðast stuttermabolum þeirra.

Sadler var fullbókaður þetta árið og því reiknar hann með að hækka verðið á þessari þjónustu sinni fyrir næsta ár. Sadler vann á auglýsingastofu áður en hann datt niður á þetta nýja lífsvirðurværi sitt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×