Innlent

Verðum að skerpa sýn okkar og vita hvert stefnir

Dóra S. Bjarnason. Á ráðstefnunni á morgun verður rætt um framkvæmd stefnunnar Skóli án aðgreiningar.
Dóra S. Bjarnason. Á ráðstefnunni á morgun verður rætt um framkvæmd stefnunnar Skóli án aðgreiningar.

Reynsla kennara og annars starfsfólks af framkvæmd skólastefnunnar Skóli án aðgreiningar verður til umræðu á ráðstefnu sem haldin verður á morgun. Ráðstefnan er önnur af þremur ráðstefnum sem fjalla um skólastefnuna sem hefur verið hin opinbera menntastefna Íslands síðan árið 1994.

„Markmiðið er að skerpa sýn okkar á stefnuna og skoða hvert við stefnum,“ segir Dóra S. Bjarnason, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður stjórnar Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar. Að sögn Dóru verður á þessari ráðstefnu meðal annars fjallað um kröfurnar sem skólastefnan leggur á starfsfólk skólans, vandamál og áskoranir sem í henni felast. Hún segir skoðanir á skólastefnunni, sem hún kjósi að kalla skóla margbreytileikans, vera mismunandi en rökræða um stefnuna sé mikilvæg.

Skóli án aðgreiningar felur meðal annars í sér að mælst er til þess að allir nemendur sæki sinn hverfisskóla og fái sérkennslu þar ef á þarf að halda.

„Við þurfum að mennta starfsfólk sem getur mætt mismunandi þörfum barnanna en við ætlumst ekki til þess að einn kennari sinni 30 börnum með afar mismunandi þarfir og sérþarfir án nokkurrar aðstoðar, slíkt reynir á samvinnu ólíkra starfsmanna skóla,“ segir Dóra.

Ráðstefnan fer fram á milli klukkan eitt og hálffimm á fimmtudag í fyrirlestrasalnum Skriðu sem er í húsnæði HÍ við Stakkahlíð. Þess má geta að erindin sem flutt eru á ráðstefnunum þremur verða gefin út næsta haust. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×