Innlent

Auður ríkra rýrnað um þúsund milljarði

Sigríður Mogensen. skrifar

Auður tuttugu og fimm ríkustu Íslendinganna árið 2007 hefur rýrnað um eitt þúsund og tvö hundruð milljarða króna en hrein eign flestra þeirra er engin í dag. Tapið slagar upp í landsframleiðslu ársins 2007.

Þegar Sirkus, fylgirit Fréttablaðsins, birti lista yfir 25 ríkustu Íslendingana í lok maí 2007 má segja að góðærið hafi verið í hápunkti.

Helstu viðskiptamenn landsins voru það ríkir að enginn sem átti undir 20 milljarða í eignir skuldlaust komst inn á listann.

Björgólfsfeðgar skipuðu tvö efstu sætin á listanum en meðal annarra í efstu sætum voru Jón Ásgeir Jóhannesson, Lýður og Ágúst Guðmundssynir og Ólafur Ólafsson.

Íslenskt viðskiptalíf tók hins vegar stakkaskiptum eftir bankahrunið og hefur hvert eignarhaldsfélagið á fætur öðru komist í þrot á síðustu vikum og mánuðum með tilheyrandi afleiðingum fyrir eigendur þeirra.

Tuttugu og fimm ríkustu Íslendingarnir árið 2007 áttu hreinar eignir upp á samtals eitt þúsund, þrjú hundruð og níutíu milljarða króna, en samkvæmt mati fréttastofu eru um tólf hundruð milljarðar af þeirri upphæð nú horfnir.

Til að setja þessa gríðarháu tölu í samhengi má nefna að landsframleiðsla ársins 2007 var tólf hundruð níutíu og þrír milljarðar króna. Þá gera áætlanir ráð fyrir því að fjárlagagatið verði 180 milljarðar króna á þessu ári.

Hægt væri að brúa fjárlagagatið á þessu ári sjö sinnum fyrir tólf hundruð milljarða króna.

Margir af áður ríkustu mönnum Íslands skilja eftir sig skuldaslóð, en þessir aðilar eru í flestum tilfellum í mjög takmarkaðri persónulegri ábyrgð fyrir skuldbindingum sínum - ef einhverri.

Ítarlega verður fjallað um eignatap auðmanna í Íslandi í dag, eftir fréttir á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×