Innlent

Hagkvæmara að vera atvinnulaus en í láglauna starfi

Telma Tómasson. skrifar

Öll laun undir tvö hundruð þúsund krónum eru komin í samkeppni við atvinnuleysisbætur. Hagstæðara getur verið að vera á bótum en vinna fullan vinnudag á lægstu launum. Viðurlög eru þó hörð þverneiti fólk að taka störf sem bjóðast.

Vinnumarkaðurinn hefur síðustu ár einkennst af svonefndum markaðslaunum. Þau hafa verið að lækka síðustu mánuði og nálgast taxtalaun, sem í mörgum tilvikum eru ekki mikið hærri en atvinnuleysisbætur. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að það sé óheppilegt þegar félagslegar bætur séu jafngóðar eða jafnvel ívið betri en laun fyrir vinnu.

Það má segja að öll laun undir 200 þúsund séu komin í samkeppni við atvinnuleysisbæturnar vegna þess að það kostar að vinna, þarf að koma sér á vinnustað og þarf að kosta gæslu fyrir börn og þess háttar og þetta eru raunverulega þær staðreyndir sem eru á borðinu og það sem menn þurfa að taka afstöðu til.

Lítum nánar á þetta og tökum ímyndað dæmi um hjón með tvö börn, annað á leikskólaaldri. Annað foreldrið er ófaglært, í fullri vinnu, við til að mynda umönnunarstörf eða í leikskóla. Það fær um 190 þúsund krónur á mánuði og þarf að greiða ýmsan kostnað, til dæmis 23 þúsund krónur fyrir leikskólapláss. Missi viðkomandi vinnuna fer hann eða hún fljótlega á grunnatvinnuleysisbætur, en að viðbættum lögbundnum greiðslum með báðum börnunum verða tekjurnar alls um 160 þúsund krónur á mánuði.

Þar sem foreldrið er heima er unnt að spara kostnað vegna leikskóla, en auk þess bjóðast því ýmis námskeið og fríðindi - jafnvirði mörg þúsund króna. Tekjurnar eru því svipaðar þegar allur kostnaður er tíndur til og væri viðkomandi í launaðri vinnu. Augljóst er að hvatinn til að vera virkur á vinnumarkaði takmarkast.

„Auðvitað er þetta svona beggja blands, en það eru ekki mörg dæmi um það að fólk þverneiti að taka störf enda hefur það skýrar afleiðingar í för með sér innan okkar kerfis," segir Gissur Pétursson forstjóri vinnumálastofnunar. Aðspurður hverjar afleiðingarnar eru svarar hann:

„Sem eru að það getur misst atvinnuleysisbætur í allt að 8 vikur og það eru hörð viðurlög."

Gissur segist þó ekki vera talsmaður þess að lækka atvinnuleysisbætur og telur mest um vert að unnt sé að koma atvinnulífinu í gang svo fyrirtæki geti borgað mannsæmandi laun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×