Innlent

Inflúensan: Mest fjölgun tilfella í Bandaríkjunum

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er með viðbúnaðarstig 5 eins og staðan er í dag.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er með viðbúnaðarstig 5 eins og staðan er í dag.

Staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) voru alls 2.217 í morgun í 24 ríkjum í heiminum og hafði fjölgað um 568 á síðastliðnum sólarhring samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar ESB. Í tilkynningu frá Sóttvarnarlækni og Almannavarnadeild segir að inflúensan hafi nú verið staðfest í fyrsta sinn í Svíþjóð og Póllandi, eitt tilfelli í hvoru landi en sem fyrr er ástandið alvarlegast í Mexíkó þar sem staðfest tilfelli eru ríflega 1.100 og 42 dauðsföll eru rakin til veikinnar.

„Staðfestum tilfellum fjölgaði mest í Bandaríkjunum á síðastliðnum sólarhring. Þar eru þau orðin 745 talsins, þar af tvö dauðsföll. Í Evrópu fjölgar staðfestum tilfellum mest á Spáni," segir ennfremur.

Þó ber ekki að túlka tölur um fjölgun tilfella beinlínis sem vísbendingu um aukna útbreiðslu veikinnar heldur er sennileg skýring annars vegar sú að sífellt fleiri rannsóknarstofur fái nú búnað til að greina inflúensuveiruna og hins vegar að stjórnvöld ríkja hafi eflt vöktun í heilbrigðiskerfum sínum til að fylgjast sem best með ástandinu á hverjum tíma.



Staðfest tilfelli inflúensu A þann 7. maí 2009.

Staðan á Íslandi

  • Enginn hefur verið lagður inn á Landspítalann vegna gruns um inflúensusmit.
  • Ekkert tilfelli inflúensu A (H1N1) hefur greinst hérlendis.
„Heilbrigðisyfirvöld hér á landi hafa áfram varann á vegna inflúensunnar og nota tækifærið til að fara gaumgæfilega yfir marga lykilþætti í gildandi landsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs inflúensu. Með annars er verið að kanna birgðastöðu matvæla, olíu, nauðsynlegra lyfja og annarra nauðsynjavara í landinu," segir einnig í tilkynningunni.



Nánari upplýsingar um inflúensuna og ráðstafanir í því sambandi er að finna á landlaeknir.is, almannavarnir.is, influensa.is og heimasíðum Sóttvarnarstofnuanr Evrópusambandsins - ECDC, http://www.ecdc.europa.eu/ og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - WHO, http://www.who.int/en/.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×