Lífið

Tími hinna dönsku dýrlinga

Töff hljómsveitarstrákar frá Danmörku sem hafa vakið mikla athygli þar. Sveitin spilar í Nakta apanum í dag klukkan 17 og Hafnarhúsinu klukkan 23. Annað kvöld spilar sveitin klukkan 22.30 á Nasa. Mynd/Jakob
Töff hljómsveitarstrákar frá Danmörku sem hafa vakið mikla athygli þar. Sveitin spilar í Nakta apanum í dag klukkan 17 og Hafnarhúsinu klukkan 23. Annað kvöld spilar sveitin klukkan 22.30 á Nasa. Mynd/Jakob
Einhver efnilegasta hljómsveit Dana, When Saints Go Machine, spilar í Hafnarhúsinu á Airwaves í kvöld. Sóley Kaldal hitti þrjá af fjórum meðlimum bandsins í æfingahúsnæði þeirra undir Rigshospitalet á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.

Danska ríkisútvarpið verðlaunaði þá fyrr á árinu sem björtustu vonina, frægasti útvarpsmaður Dana hefur lýst fyrstu smáskífu þeirra, Fail Forever, sem metnaðarfyllsta popplagi danskrar tónlistarsögu og tískuelítan vill ólm fá þá í samstarf. Hverjir eru þeir? When Saints Go Machine er fjögurra manna popphljómsveit frá Kaupmannahöfn skipuð söngvaranum Nikolaj Manuel Vonsild, Simon Muschinsky á synth, Jonas Kenton á hljómborð og bassa og Silas Moldenhawer á trommur. Lengi grúskað í tónlistHvar kynntust þið og hvernig varð hljómsveitin til?

Jonas: „Við höfum allir þekkst á einhvern hátt síðan í grunnskóla og verið að grúska í tónlist síðan þá, allt frá raftónlist yfir í kvikmyndatónlist.“

Silas: „Við Simon stofnuðum hljómsveit þegar við vorum sex og níu ára. Ég trommaði og söng á enskuskotnu bullmáli en listrænn ágreiningur varð til þess að sú hljómsveit hélt aðeins tvenna tónleika.“

Simon: „Já, mér fannst hann bara ekki nógu góður söngvari. When Saints Go Machine varð svo til fyrir rúmum tveimur árum þegar Silas og Jonas vildu fá Simon með sér í hljómsveit og hann stakk upp á Nikolaj sem söngvara.“

Silas: „Nikolaj var eini danski söngvarinn sem okkur þótti spennandi á þeim tíma svo að við sendum honum demó af því sem við vorum að gera og viku seinna var lagið You Should Be Someone Else fullmótað.“ Semja á tölvurLagið er eitt af tíu lögum plötunnar Ten Makes A Face sem þeir segja að reki sögu bandsins. Titillinn vísar til þess hvert laganna tíu sé eiginleiki heildarsvips hljómsveitarinnar og að án heildarinnar sé ekki hægt að þekkja þeirra stíl. En hvernig tónlist varð til úr þessu samstarfi?

Simon: „Við komum allir úr ólíkum áttum en við erum sammála um að gera vandaðar poppmelódíur og þéttar útsetningar. Við nálgumst tónlistina á svolítið óhefðbundinn hátt því við hittumst ekki og „djömmum“ á hljóðfærin heldur byrjum við í tölvunum. Lokaafurðina þýðum við svo yfir í hefðbundin hljóðfæri í bland við raftónlist. Við höfum stundum kallað þetta jaðarrafpopp (e. alternative electronic pop) því við viljum gera spennandi hluti sem höfða þó til breiðs hóps.“

Silas: „Það sem gerir samstarfið svona gott er að við vorum í langan tíma búnir að vera aðdáendur hver annars og við erum því sífellt að reyna að bæta okkur og gera betri hluti til að ganga í augun hver á öðrum.“ Miklir tískumennÞið hafið verið þekktir fyrir að ná upp brjálaðri stemningu þegar þið spilið, hverju megum við búast við á tónleikunum hér á Íslandi?

Silas: „Í upptökum er tónlistin fáguð og krafturinn beislaður en á tónleikum sleppum við honum lausum og erum þar af leiðandi töluvert harðari. Við viljum bjóða upp á almennilegt rokksjóv og erum hvorki kurteisir né settlegir á sviðinu.“

Jonas: „Á tónleikum eiga lögin að grípa þig og heltaka fæturna, hjartað og hugann – í þessari röð.“

Hversu mikilvægt er útlit og ímynd hljómsveitarinnar?

Silas: „Við höfum allir mikinn áhuga á tísku og hönnun og við erum kontrólfrík svo við viljum helst sjá sjálfir um að gera öll plaköt, plötuumslög og myndbönd. Við erum samt í góðum tengslum við listamenn á öðrum sviðum skemmtanabransans og hleypum góðu fólki inn með ferskar hugmyndir.“

Þið eruð allir að koma í fyrsta skipti til Íslands, eruð þið spenntir fyrir því að gera eitthvað séríslenskt?

Simon: „Einhver var búinn að segja okkur að við gætum farið í kindakappreiðar! Það var kannski misskilningur.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.