Innlent

Mikill stuðningur við mögulega ESB aðild Íslands

Stefán Haukur Jóhannesson verður aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Mynd/Stefán Karlsson
Stefán Haukur Jóhannesson verður aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Mynd/Stefán Karlsson

„Allar vísbendingar eru í þá átt að innan Evrópusambandsins sé mikill stuðningur við mögulega aðild okkar," segir Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, sem fer fyrir íslensku samninganefndinni í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið sem skipuð var í vikunni. Rætt er við Stefán í Fréttablaðinu í dag.

Stefán segir að nú sé beðið eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ljúki yfirferð sinni á svörum íslenskra stjórnvalda við 2500 spurningalista ESB.

„Framkvæmdastjórnin telur svör okkar efnislega góð og er ekkert að vanbúnaði að ljúka þeim störfum. Þegar álitið liggur fyrir taka aðildarríki sambandsins það til meðferðar á leiðtogafundi undir lok þessa árs eða snemma á næsta ári. Sá fundur tekur svo endanlega ákvörðun og við eigum ekki von á öðru en að hún verði jákvæð og niðurstaðan sú að hefja formlegar viðræður," segir Stefán.

Verkefni samninganefndarinnar verði að tryggja hagsmuni Íslands og ná sem hagstæðustum samningi, að mati Stefáns. Það komi síðar í ljós hversu sveigjanlegt Evrópusambandið verði.

Hann segir að það verði einnig að koma í ljós hvort að samningar náist um sjávarútvegsmál sem almenningur og og útgerðarmenn sætti sig við.

„Við vitum að sjávarútvegsmálin verða meðal erfiðustu mála og við útfærslu samningsmarkmiðanna verður haft náið samráð við hagsmunaaðila. Það hefur hins vegar sýnt sig að Evrópusambandið hefur viljað finna sérlausnir sem ný aðildarríki geta unað við. Reyndin sýnir að sambandið er opið og menn þar á bæ hafa gefið til kynna að þeir vilji reyna að finna lausn á málum sem kemur til móts við kröfur Íslendinga. En allt mun þetta skýrast við samningaborðið," segir Stefán.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×