Innlent

Lífeyrissjóðirnir neituðu Landsbankanum

Landsbankinn reyndi skömmu fyrir hrun að fá lífeyrissjóðina til að gera upp gjaldmiðlaskiptasamninga við bankann upp á 600 milljónir evra. Fjárhæðin hefði dugað bankanum til að verða við kröfu breska fjármálaeftirlitsins til að taka Icesave í flýtimeðferð.

Breska fjármálaeftirlitið var tilbúið á sínum tíma að færa Icesave reikninganna yfir í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu frá Landsbankanum. Hefði þetta gengið eftir hefði íslenska ríkið ekki þurft að taka á sig ábyrgð vegna reikninganna sem öllum líkindum muna kosta skattgreiðendur á bilinu 150 til 200 milljarða króna.

Aðeins nokkrum dögum fyrir setningu neyðarlaganna í október óskaði Landsbankinn eftir því að fá að gera upp gjaldmiðaskiptasamninga lífeyrissjóðanna við bankann. Um var að ræða 600 milljónir evra.

Landsbankinn átti á þessum tíma við mikinn lausafjárvanda að stríða en peninga átti meðal annars að nota til að verða við beiðni breska fjármálaeftirlitsins.

Lífeyrissjóðirnir neituðu hins vegar að gera upp samningana.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið nánast öruggt að ef lífeyrissjóðirnir hefðu orðið við beiðni bankans hefði ábyrgð vegna Icesave reikninganna ekki lent á íslenska ríkinu.

Lífeyrirssjóðirnir voru á þessum tímapunkti í viðræðum við stjórnvöld um mögulegan flutning á erlendum eignum sjóðanna til landsins. Að mati fulltrúa lífeyrissjóðanna þótti ekki ástæða til að verða við beiðni Landsbankans þar sem samningarnir voru ekki komnir á gjalddaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×