Lífið

Yrkir um kynferðislega ósigra sína

Tekur sjálfan sig ekki hátíðlega  Sigurður Ágúst segir að hafa megi gaman af ljóðunum hans.
fréttablaðið/Vilhelm
Tekur sjálfan sig ekki hátíðlega Sigurður Ágúst segir að hafa megi gaman af ljóðunum hans. fréttablaðið/Vilhelm

„Maður verður að hafa húmor fyrir sjálfum sér,“ segir ljóðskáldið og laganeminn Sigurður Gústavsson, Siggi Gúst.

Sigurður gaf í vikunni út bókina Ölið, bölið og þynnkan sem fylgdi. Ljóðin fjalla meðal annars um ástandið í þjóðfélaginu, ógæfuna, þynnkuna og kynferðislega ósigra. Siggi segir að flest ljóðin myndu flokkast sem níð, drykkjuvísur, samfélagsleg ádeila og jafnvel guðlast.

Spurður hvort hann óttist að síðast­nefnda atriðið valdi honum vandræðum er Siggi fljótur að svara á viðeigandi hátt: „Það væri þá bara í þessu lífi,“ segir hann. „Erum við ekki að stíga inn í 21. öldina? Maður má ekki vera hræddur við krossinn.“

Siggi er 23 ára gamall og tilheyrir fámennum hópi af hans kynslóð sem leggur vinnu í að viðhalda íslenskri ljóðahefð. „Þarf ekki einhver að taka þetta á sig? Þetta er deyjandi sport,“ segir hann. „Ljóðahefð Íslendinga má ekki deyja út.“

Kvæði Sigurðar ríma öll og eru flest stuðluð. Hann fer líka um víðan völl um heim ljóðsins og semur til dæmis ferskeytlur, limrur og vikivaka. Siggi tekur sjálfan sig ekki hátíðlega og segir að fólk ætti að hafa gaman af ljóðunum. Þrátt fyrir það eru þau samin á erfiðum stundum. „Ég held að skáldagyðjan komi þegar ég er hrjáður eða lítill í mér. Til dæmis á löngum næturvöktum í álverinu,“ segir hann.

Ölið, bölið og þynnkan sem fylgdi fæst í Iðu, verslun Máls og menningar á Laugavegi og í bókverkabúðinni Útúrdúr í Nýlistasafninu.- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.