Golf

Birgir Leifur fékk 700 þúsund krónur fyrir árangurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur.
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur. Nordic Photos / Getty Images

Birgir Leifur Hafþórsson náði sínum besta árangri á núverandi tímabili Evrópumótaraðarinnar í golfi er hann varð í 38.-42. sæti á móti á Madeira í Portúgal.

Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem hann nær verðlaunasæti en alls lék hann á níu höggum yfir pari. Fyrir það fékk hann 4550 evrur eða rétt rúmar 700 þúsund krónur.

Á lokadeginu í gær lék Birgir Leifur á einu höggi yfir pari vallarins eða 72 höggum. Hann fékk þrjá fugla og fjóra skolla.

Heilt yfir lék Birgir Leifur vel ef þriðji keppnisdagurinn er frátalinn. Þá lék hann á sjö höggum yfir pari en hefði hann haldið sínu striki þá má gera ráð fyrir því að hann hefði verið meðal efstu fimmtán keppenda mótsins.

Engu að síður er árangurinn góður, ekki síst í því ljósi að hann var frá allt síðastliðið sumar vegna erfiðra meiðsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×